Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala, segir að staðan á atvinnuhúsnæðismarkaði sé sambærileg og á íbúðamarkaði.

„Framboð af atvinnuhúsnæði í dag er einfaldlega mjög lítið. Fyrir um tveimur árum síðan var framboðið mikið en í kjölfar heimsfaraldursins hefur þetta meira og minna hreinsast upp. Sem dæmi um það er að stóru fasteignafélögin eiga lítið óútleigt,“ segir Hannes og bætir við að í kringum Covid hafi fjárfestar leitað mikið í fasteignir.

Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala.
Fréttablaðið/Ernir

„Fjárfestar leituðu mikið í fasteignir í Covid og þegar aðeins leið á faraldurinn þá héldu fyrirtæki að þau gætu minnkað við sig fermetra því fólk fór að vinna heima í meiri mæli.“

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir að það sé skortur á atvinnuhúsnæði eins og staðan er í dag og þá sérstaklega á ákveðnum tegundum af atvinnuhúsnæði.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins.

„Það er til að mynda mikill skortur á hágæða skrifstofuhúsnæði þar sem staðsetningin er góð og á svæðum sem eru vinsæl eins og til dæmis á Smáralindarsvæðinu, í Borgartúninu og fleiri stöðum. Það vantar líka atvinnuhúsnæði með góðri aðkomu og tengingum við bílastæði í kjöllurum og á lóð,“ segir Helgi og bætir við að það vanti einnig minni iðnaðar- og lagerhúsnæði.

Hannes bætir við að það þurfi að gefa verulega í við byggingu á atvinnuhúsnæði.

„Það er einfaldlega verið að byggja of lítið af atvinnuhúsnæði og það sama á við um íbúðarhúsnæði. Fyrir um tveimur árum bjóst markaðurinn allt eins við því að það yrði offramboð en það varð ekki raunin. Í Reykjavík koma upp, ef maður leitar í leitarvélinni, 500 lausar fasteignir en taka þarf inn í myndina að margar af þessum eignum eru tvískráðar og sumt í leigu þannig að þetta eru ekki nema svona um 200 eignir sem eru til sölu.“

Hann segir jafnframt að hann búist við að staðan muni batna innan þriggja til fimm ára. „Það eru áform um að byggja töluvert af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Mikið af nýbyggingum er með lítil atvinnurými á jarðhæð, sem er skemmtilegt en það þarf auðvitað stærri einingar.“

Aðspurður hvað staðan hafi varið lengi segir Helgi að ástandið hafi varað í þó nokkurn tíma. „Á þessu ári höfum við séð eftirspurnina vera að aukast stöðugt og það eru skýr merki í hagkerfinu um bata fram undan. Það leiðir af sér að fyrirtæki eru að horfa til þess að stækka við sig, breyta og styrkja sig.“Hann bætir við að hann sé bjartsýnn á að ástandið muni batna á komandi misserum.

„Þessi málaflokkur þarf þó að vera stöðugt í uppfærslu og endurnýjun. Fyrirliggjandi spár um breytta borgarþróun og fjölgun á höfuðborgarsvæðinu sýna að það þarf meira af atvinnuhúsnæði til að styðja við þá þróun. Það eru margir sem benda á að það sé nóg framboð af skrifstofuhúsnæði en ég er ekki alveg sammála því. Það er kannski nóg framboð af ákveðinni tegund af skrifstofuhúsnæði, það er að segja gömlu og úreltu, en fyrirtækin eru ekkert að sækjast í það.“

Hannes bætir við að stjórnvöld og sveitarfélög geti gert ýmislegt til að bæta úr stöðunni.

„Auka skipulag og stytta boðleiðir, auðvelda ferla í skipulaginu.“