Birgir Þór Bielvedt og Skeljungur hafa gert sameiginlegt kauptilboð í Domino's á Íslandi. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins, en Birgir staðfestir í samtali við blaðið að hann hafi lagt fram tilboð.
Ekki kemur fram hvort að aðrir fjárfestar séu með í tilboðinu. Ef að kaupin ganga eftir eignast Birgir Domino's í þriðja sinn.
Seljandi Domino's á Íslandi er Domino‘s Pizza Group (DPG), sérleyfishafi keðjunnar í Bretlandi, sem einnig hyggst selja rekstur sinn á hinum Norðurlöndunum.
Verið er að fara yfir tilboðin en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er hart barist um Domino's og tilboð borist frá fjölda erlendra og innlendra aðila.
Birgir á í dag hlut í Domino's í Noregi sem hann keypti af DPG fyrr á árinu. Hann segist sjá ný tækifæri í Domino's í kjölfar kórónuveirufaraldursins, tæknilausnir og heimsendingar hafi aukist til muna og þar stæði Domino's vel að vígi.
Domino's á Íslandi hagnaðist um 244 milljónir í fyrra en um 456 milljónir 2018.