„Viðtökurnar hafa verið framar vonum og sérstaklega hjá eldri kynslóðum sem kom okkur örlítið á óvart,“ segir Patrekur Maron Magnússon, framkvæmdastjóri Myntkaupa ehf. Þann 11. maí síðastliðinn setti fyrirtækið samnefndan vef í loftið þar sem Íslendingar geta með einföldum hætti keypt og selt rafmyntina bitcoin. Þegar þessi orð eru skrifuð hafa um 500 Íslendingar skráð sig á vefinn og alls hafa þessir einstaklingar keypt rafmyntina fyrir um átta milljónir króna.

Mikil vinna fólst í því að fá skráningu á starfseminni hjá Fjármálaeftirlitinu. „Það var ellefu mánaða ferli,“ segir Patrekur. Að hans mati var mikil þörf á því að Íslendingar fengju vettvang fyrir slík rafmyntaviðskipti.

„Það var mjög flókið og tímafrekt að fá reikninga hjá erlendum rafmyntamiðlunum, til dæmis var nauðsynlegt að senda út afrit af skilríkjum og annað slíkt. Hérlendis erum við svo heppin að hafa rafræn skilríki sem auðvelda slíka auðkenningu gífurlega. Það tekur því mjög skamma stund að stofna reikning og hefja viðskipti með Bitcoin gegn vægum þóknunum,“ segir Patrekur.

Að hans sögn er áhugi landans á rafmyntinni mikill. „Ég segi stundum að bitcoin sé í raun og veru stafrænt gull enda er þetta takmörkuð auðlind. Það eru því sífellt fleiri sem hafa áhuga á að eiga rafmyntina sem hluta af sínu eignasafni.“