Leit að orðum á Google tengdum framkvæmdum, ferðalögum innanlands og endurfjármögnun heimila, hefur aukist um rúmlega 50 prósent í mars til nóvember samanborið við sama tímabil fyrir ári. Fjöldi leita að tónlistarmanninum Helga Björnssyni, sem hélt fjölda tónleika í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans á laugardagskvöldum í samkomutakmörkunum, jókst um 554 prósent á milli ára og nam 19.100 á tímabilinu. Þetta leiðir greining stafrænu auglýsingastofunnar Sahara í ljós.

Helgi Björnsson söngvari.

Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara, segir í samtali við Markaðinn að greining á Google geti veitt góða innsýn í tíðarandann hverju sinni. Heimsfaraldurinn COVID-19 olli því að fólk var mikið heima og gat ekki farið erlendis í sumarfrí. Það hafi leitt til þess að fólk leitaði mikið á Google tengt framkvæmdum á heimilinu og ferðalögum innanlands. „Leit á Google gerbreyttist í COVID-19. Fjöldi leita að orðum á borð við Tenerife féll skarpt á sama tíma og í staðinn var leitað mikið að hjólhýsum til að ferðast um Ísland,“ segir hann. Eins hafi lægri vextir og mikið líf á fasteignamarkaði leitt til þess að fólk leitaði að ýmsu tengdu húsnæðislánum í meira mæli.

Leit að orðum tengdum ferðalögum innanlands jókst um 53 prósent, samkvæmt greiningu Sahara. Undir þann flokk falla orðin fellihýsi, hjólhýsi, kaupa sumarbústað, leigja sumarbústað, sumarbústaður, sumarhús, tjaldvagnar og ferðast innanlands. „Leit að þessum orðum flestum hófst af fullum krafti strax í apríl, sem var mánuði fyrr en árið á undan. Að sama skapi varð dýfan í þessum leitum skarpari þegar leið á haustið en árið á undan, enda sóttvarnareglur hertar á ný og fólk meira heima við,“ segir hann.

Mesta aukningin var í leitarorðunum leigja sumarbústað, eða 132 prósent, sumarbústaður, eða 91 prósent og sumarhús 66 prósent.

„Þegar samkomubann og ferðatakmarkanir fóru að gera vart við sig sáu margir kjörið tækifæri til að huga að framkvæmdum á heimilinu,“ segir Davíð Lúther. Undir þennan flokk hjá Sahara féllu leitarorðin framkvæmdir, eldhúsinnréttingar, málning, parket, flísar, leggja parket, viðhald, endurnýja baðherbergi, flísaleggja og baðinnréttingar. Mest aukning var í leitum að orðinu framkvæmdir, eða 102 prósent, þar á eftir parket, eða 62 prósent. Leit að málningu og flísum jókst um 54 prósent.

„Árstíðasveiflur voru svipaðar og árið 2019, sumarið var lágannatími en vor og haust háannatími. Þarna spilar eflaust inn í að takmörkunum var aflétt að miklu leyti síðastliðið sumar og margir þá á faraldsfæti innanlands,“ segir hann.

Mikið líf hefur verið á fasteignamarkaði frá því að faraldurinn hófst og það endurspeglast vel í Google-leit að orðunum húsnæðislán, íbúða­lán, stýrivextir, vextir, innlánsvextir, óverðtryggt lán, verðtryggt lán, yfirdráttur og endurfjármögnun. Leit að óverðtryggðum lánum jókst um 169 prósent á tímabilinu, endurfjármögnun um 125 og verðtryggðum lánum um 99 prósent. Leit að innlánsvöxtum stóð í stað, mögulega vegna þess að þeir vextir hafa farið lækkandi. Heildaraukningin í þessum flokki var 51 prósent, samkvæmt greiningunni.