Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir skynsamlegt að skoða eignarhald á innviðafyrirtækjum og hafa þar til hliðsjónar fyrirmyndir frá Norðurlöndunum.„Við teljum að aðhald frá einka­aðilum sé af hinu góða og það virðist vera sú niðurstaða sem til dæmis Norðmenn hafi komist að í þessum efnum, þar sem sjá má mun fjölbreyttara eignarhald á innviðum,“ segir Svanhildur og bætir við að umræða um þessi mál hafi ætíð verið viðkvæm, ekki síst pólitískt.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

„Einhverra hluta vegna erum við í íhaldssamari kantinum þegar kemur að sölu á innviðum og fólk hefur margs konar áhyggjur því tengt. En í því samhengi má benda á að það er hægt að setja ýmiss konar skilyrði við slíka sölu, bæði um það hversu mikið er losað af eignarhaldi ríkisins og sömuleiðis um það hverjir gætu eignast hlut í fyrirtækjum sem við skilgreinum sem mikilvæga innviði.“

Hún bætir við að því fylgi margir kostir að eignarhald sé fjölbreytt.

„Ef við erum að tala um skráningu á markað sé ég hana sem mjög jákvæða, til dæmis til að fá markaðsverð á eignir ríkisins. Svo er almennt gott að fá fleiri augu inn í reksturinn því það veitir aðhald. Því til stuðnings má benda á jákvæðar breytingar í rekstri ýmissa fyrirtækja gegnum tíðina eftir að eignarhaldið færðist frá hinu opinbera til einkaaðila.“

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að mikil tækifæri felist í því að fá fjármagn úr öðrum áttum í innviðafjárfestingar heldur en endilega beint frá ríkinu.„Ríkið veitir einfaldlega ekki sama aðhald og aðrir fjárfestar því ríkið verður seint gjaldþrota en þegar þú færð fjárfesta að borðinu sem hafa ekki þann lúxus þá koma þeir með nýja sýn og aðrar hugmyndir inn í reksturinn,“ segir Konráð og bætir við að það sé mjög hollt fyrir hvaða rekstur sem er að fá fjölbreyttan hóp fjárfesta að borðinu og hið sama gildi um innviðafjárfestingar.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

„Auðvitað eru innviðir ólíkir mörgu öðru og stundum getur verið náttúruleg einokun en það er hægt að koma til móts við það í gegnum regluverk.“

Hann segir jafnframt að andstaða Íslendinga gagnvart innviðafjárfestingum frá einkaaðilum sé þekkt og því sé góð lausn að fá lífeyrissjóði að borðinu.

„Í tilfelli fjölmargra ríkisfyrirtækja gæti verið hagfellt fyrir ríkið að fá lífeyrissjóðina inn í þessar fjárfestingar og einnig eru innviðir spennandi fjárfestingakostur fyrir lífeyrissjóðina. Það má heldur ekki gleyma því að allir Íslendingar fjárfesta í gegnum lífeyrissjóðina. Það eru í raun allir Íslendingar sem eiga til dæmis einhvern hlut í öllum fyrirtækjum í Kauphöllinni.“

Hann bætir við að í því samhengi væri augljós kostur að lífeyrissjóðirnir myndu koma að fjárfestingu í Landsvirkjun.

„Allir Íslendingar eiga Landsvirkjun og það myndi ekki breytast þótt lífeyrissjóðirnir myndu koma að eignarhaldi þar. Með því mætti skerpa á kröfunni um að reksturinn myndi skila ásættanlegri arðsemi og ríkinu yrði veitt aðhald. Lífeyrissjóðirnir fjárfesta til langs tíma og stöðugt tekjustreymi hentar þeim. Þetta tvennt fer vel saman með fjárfestingu í innviðum.“

Ekki margar eignir sem hegða sér eins og innviðir

Ómar Tryggvason, framkvæmdastjóri Innviðafjár fjárfestinga, innviðasjóðs sem fjármagnaður er af lífeyrissjóðum, segir að út frá skuldbindingu lífeyrissjóða henti efnahagslegir innviðir mjög vel sem fjárfestingakostur og það sé líklega þess vegna sem víða í heiminum séu lífeyrissjóðir fjárfestar í innviðum.

„Frá sjónarhorni lífeyrissjóða eru skuldbindingar þeirra mjög langt greiðsluflæði og því fylgja fastir vextir. Í raunveruleikanum verða hreyfingar á verðlagi, vöxtum og fleiri þáttum. Þetta fer í langa skuldbindingu og það eru einfaldlega ekki margar eignir sem hegða sér eins og innviðir,“ segir Ómar og bætir við að innviðir séu með greiðsluflæði til langs tíma.

„Þess vegna, út frá skuldbindingum lífeyrissjóða, henta innviðir mjög vel. Fjárfesting í innviðum, óháð því hver gerir það, er síðan forsenda hagsældar.“