Fyrirtækið Transition Labs hyggst beita sér af fullum þunga í baráttunni gegn loftslagsvánni. Fyrirtækið samanstendur af hópi frumkvöðla og framkvæmdafólks sem hefur áhuga á því málefni.

Transition Labs var stofnað af þeim Davíð Helgasyni og Kjartani Erni Ólafssyni.Í samtali við Markaðinn segir Kjartan að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað hjá Davíð en hann hafi um árabil verið virkur fjárfestir í loftslagstengdum verkefnum.

„Í samtölum við þessi fyrirtæki kom ítrekað í ljós að þau eiga við sams konar áskoranir að stríða. Þá kviknaði sú hugmynd að þróa staðlaðar lausnir á þessum áskorunum sem hægt er að nýta aftur og aftur, fyrir hvert fyrirtækið á fætur öðru, til að flýta uppbyggingu og skölun þeirra. Þetta er kjarninn í starfsemi Transition Labs. Til að byrja með ætlum við að starfa á Íslandi því við metum það sem svo að sumt sé hægt að gera hér hraðar en annars staðar,“ segir Kjartan og bætir við að ýmislegt geri það að verkum að Ísland sé kjörinn staður fyrir loftslagstengd verkefni.

„Þeim kostum má til einföldunar skipta í tvennt. Annars vegar eru náttúrulegir kostir og hins vegar samfélagslegir kostir. Náttúra og auðlindir Íslands henta mörgum loftslagsverkefnum vel. Við búum á basaltklumpi sem gagnast sumum loftslagsverkefnum og hefur til dæmis gagnast Carbfix vel. Aðgangur að Norður-Atlantshafinu nýtist öðrum verkefnum. Græna orkan okkar leikur líka hlutverk. Síðan eru samfélagslegir þættir sem gagnast á Íslandi eins og aðgangur að heims­klassa vísindafólki og stjórnvöld sem hafa metnað í loftslagsmálum og vilja greiða leið slíkra verkefna.“

Transition Labs hefur hafið samstarf við erlenda loftslagsfyrirtækið Running Tide en það hyggst hefja starfsemi hér í sumar. Running Tide nýtir nýjustu tækni til að örva náttúrulegt ferli sjávarins við að fjarlægja kolefni úr andrúmsloftinu, bæta lífríki hafsins og skilar ávinningnum bæði til sjávarplássa og vistkerfa heimsins. Aðferðir félagsins fjarlægja kolefni í þúsund ár. Kjartan segir að árangur af starfsemi Running Tide muni sjást strax á þessu ári.

„Samstarfið við Running Tide er fyrsta verkefnið okkar og fleiri samstarfsfyrirtæki munu sigla í kjölfarið.“

Kjartan bætir við að Running Tide sé eitt af flottustu loftslagsverkefnum heims og hafi unnið til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga.

„Markmið Transition Labs er að flýta loftslagsbaráttunni. Við höfum stuttan tíma til að takast á við þetta verkefni. Ísland hefur lýst því yfir að það ætli að verða kolefnishlutlaust árið 2040 þannig að það eru aðeins 18 ár til stefnu. Við trúum því að við getum flýtt því um nokkur ár að áhrifarík loftslagsverkefni nái skala og geti byrjað að hafa verulega áhrif á loftslagið til góðs.“

Kjartan segir jafnframt að mikil tækifæri felist í því að vera hluti af lausninni í baráttunni gegn loftslagsvánni.

„Allar rannsóknarskýrslur og spár greiningaraðila benda til þess að þetta sé sá hluti efnahagslífsins sem muni vaxa hvað hraðast næsta áratuginn. Margir líkja því sem er að eiga sér stað í loftslagstengdum verkefnum við það að standa á upphafsmetrunum í internetbyltingunni. Umfang loftslagslausna í efnahagslífinu mun verða gríðar stórt ef spár ganga eftir.“

Kjartan segir að þau sem standa að Transition Labs brenni öll heitt fyrir loftslagsbaráttunni en að starfið megi ekki eingöngu vera borið uppi af hugsjón.

„Fyrirtækin sem við byggjum upp eiga að vera rekstrarlega sjálfbær, geta skilað hagnaði og búið til verðmæti. Það er lykillinn að því að þau geti vaxið enn frekar og haft enn meiri áhrif til góðs.“

Björninn ekki unninn

Kjartan bætir við að þó að sú viðleitni að binda koltvísýring sé mikilvæg þurfi að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á öllum sviðum hagkerfisins.

„Loftslagslausnir sem binda koltvísýring eru ekki að fara að bjarga öllu. Þess vegna er mikilvægt að draga úr útblæstri eins og kostur er en öllum er ljóst að efnahagslífið fer tæplega niður í núll útblástur. Því er mikilvægt að binda það sem stendur út af og svo syndir fortíðarinnar allt frá upphafi iðnbyltingar. Þó að okkar lausn sé alls ekki allsherjarlausn þá getur hún reynst mikilvægur þáttur.“