Hagstæð verðlagning á hlutum í Íslandsbanka, sem felur í sér verulegan afslátt ef miðað er við gengi bréfa Arion banka, er líklegt til að skila sér í gríðarlegri umframeftirspurn í hlutafjárútboði bankans sem hófst í byrjun þessarar viku.

Í útboðinu er leiðbeinandi verð á bilinu 71 til 79 krónur á útboðshlut. Hlutaféð er þannig selt á genginu 0,77 til 0,85 af bókfærðu eigin fé bankans í lok fyrsta ársfjórðungs. Ef hlutaféð verður selt á genginu 0,81 og ef gengi bréfa Arion banka er notað sem viðmið – gengið samsvarar því að markaðsvirði bankans sé um 1,25 af bókfærðu eigin fé – þá nemur afslátturinn sem er gefinn í útboðinu á bréfum Íslandsbanka um 35 prósentum.

Markaðurinn hefur heimildir fyrir því að á kynningarfundi sem Kvika eignarstýring stóð fyrir í vikunni – móðurfélagið Kvika banki er á meðal þeirra ráðgjafa sem koma að útboðsferlinu – hafi komið fram að á meðal ráðgjafa sé samhljómur um að hægt sé að réttlæta 25 prósenta hærri verðlagningu á Íslandsbanka heldur en efri mörk verðbilsins kveða á um. Efri mörk verðbilsins eru sem fyrr segir 79 krónur á hlut. Byggist matið meðal annars á þeim arðsemismarkmiðum sem Íslandsbanki hefur sett.

Stjórnendur bankans hafa gefið út að markmið hans sé að skila arðsemi eigin fjár á bilinu 8 til 10 prósent fyrir árið 2023 og yfir 10 prósent til lengri tíma. Hagnaður bankans á fyrsta ársfjórðungi nam 3,6 milljörðum sem jafngilti 7,7 prósenta arðsemi á ársgrundvelli.

Þá hefur einnig komið fram á kynningarfundum með fjárfestum að virðisbreytingar á útlánasafni bankans hafi verið jákvæðar í apríl og maí. Ólíkt Arion banka og Landsbankanum bókfærði Íslandsbanki engar jákvæðar virðisbreytingar á útlánasafni sínu í síðasta árshlutauppgjöri.

Viðmælendur Markaðarins á fjármálamarkaði eru á einu máli um að verðlagning bankans sé mjög hagstæð. Þó reyndist erfitt að finna viðmælendur sem voru tilbúnir að tjá sig undir nafni. Fjölmörg fjármálafyrirtæki koma að útboðinu með einum eða öðrum hætti og er þeim óheimilt að tjá sig opinberlega um útboðið í ákveðinn tíma.

„Miðað við viðbrögðin á fyrsta degi útboðsins er óhætt að segja að markaðurinn sé að taka verðlagningunni mjög vel.“

„Miðað við viðbrögðin á fyrsta degi útboðsins er óhætt að segja að markaðurinn sé að taka verðlagningunni mjög vel,“ segir einn af viðmælendum Markaðarins sem starfar á fjármálamarkaði.

Sama dag og útboðið hófst tilkynntu Bankasýsla ríkisins og Íslandsbanki að borist hefðu áskriftir fyrir öllum hlutum sem eru í boði í útboðinu, eða fyrir samanlagt meira en 50 milljarða króna.

Þessa miklu eftirspurn á fyrsta degi má einnig rekja til fyrirkomulagsins en útboðið er byggt upp þannig að það er hvati fyrir fjárfesta að skrá sig snemma fyrir sem stærstum hlut og á hærra enda verðbilsins.

Tveir erlendir fjárfestingarsjóðir, Capital World Investors og RWC Asset Managament, og íslensku lífeyrissjóðirnir Gildi og LIVE, eru hornsteinsfjárfestar í útboðinu.

Capital Worlds Investors er hluti af bandaríska fjárfestingarisanum Capital Group sem er annar stærsti hluthafinn í Marel. Sjóðir á vegum samstæðunnar, sem byrjuðu fyrst að fjárfesta í Marel vorið 2018, eiga samtals 8,7 prósenta hlut í íslenska hátæknifyrirtækinu, samkvæmt upplýsingum frá greiningarfyrirtækinu Morningstar.

Aðrir erlendir fagfjárfestar munu taka þátt í lokuðu útboði og búast viðmælendur Markaðarins við því að eftirspurnin verði töluverð.

Nær þriðjungi af seldu hlutafé Íslandsbanka verður ráðstafað til hornsteinsfjárfestanna og viðmælendur Markaðarins telja að mjög stórum hluta af útboðinu verði ráðstafað til almennra fjárfesta. Upphæðin geti jafnvel numið 20 milljörðum króna, eða hátt í 40 prósentum af hámarksstærð útboðsins. Er því viðbúið að fagfjárfestar, aðrir en hornsteinsfjárfestarnir fjórir, fái mun minni hlut en þeir vilja.

Í tilboðsbók A, sem ætluð er almennum fjárfestum, er tekið við áskriftum að fjárhæð 50 þúsund til 75 milljónir króna en áskriftir sem nema meira en 75 milljónum króna fara í tilboðsbók B.

„Það má búast við gríðarlegri umframeftirspurn í þessu útboði og þar af leiðandi verulegum skerðingum.“

„Það má búast við gríðarlegri umframeftirspurn í þessu útboði og þar af leiðandi verulegum skerðingum,“ segir einn viðmælandi.

Lágmarksupphæðin sem almennir fjárfestar geta skráð sig fyrir hefur aldrei verið eins lág í hlutafjárútboðum eftir fjármálahrunið. Er það í samræmi við yfirlýst markmið Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að ýta undir þátttöku almennings í útboðinu. Þá verður leitast eftir því að skerða ekki áskriftir sem eru lægri en ein milljón króna.

Áætlað markaðsvirði bankans í útboðinu er því um 150 milljarðar króna að því gefnu að verð á útboðshlut verði við miðju leiðbeinandi verðbils. Ríkissjóður, eigandi bankans, mun að lágmarki selja 25 prósenta hlut en að hámarki 35 prósent. Ef ríkissjóður nýtir heimildina til fulls getur hann aflað 50 milljarða króna sem jafngildir um 15 prósentum af lánsfjárþörf hans í ár en samkvæmt fjárlögum nemur hún ríflega 350 milljörðum króna.

Góð skilyrði fyrir bankasölu

Viðmælendur telja að skilyrði fyrir sölu ríkissjóðs á Íslandsbanka séu mjög hagfelld og vísa til þess að lágvaxtaumhverfið hafi beint fjármagni inn á hlutabréfamarkaðinn og þrýst upp hlutabréfaverði.

„Þótt Seðlabankinn hafi hækkað vexti um 25 punkta þá er búist við frekar mildum vaxtaákvörðunum næstu mánuði. Við verðum því enn með tiltölulega lága vexti í sögulegu samhengi og það mun áfram beina fjármagni inn á markaðinn,“ segir einn viðmælandi.

„Fjárfestar munu líklega fá minna í útboðinu en þeir vilja og þá sitja þeir uppi með lausafé sem þeir vilja ráðstafa aftur inn á markaðinn.“

Þá kemur sér einnig vel að íslenski hlutabréfamarkaðurinn var tekinn inn í vaxtamarkaðavísitölu MSCI í lok maí. Fjármagnsflæði inn á markaðinn hefur að einhverju leyti vegið upp á móti söluþrýstingnum sem skapast þegar innlendir fjárfestar selja hlutabréf til að búa sig undir þátttöku í útboði Íslandsbanka.

Eins og greint var frá í Markaðinum í gær hafa þrír nýir erlendir vísitölusjóðir, sem fjárfesta einkum í hlutabréfum félaga á vaxtarmörkuðum (e. frontier markets), bæst við hluthafahóp Arion banka á undanförnum dögum en Ísland var formlega tekið inn í vísitölu MSCI þann 28. maí síðastliðinn.

„Hin hliðin er sú að fjárfestar munu líklega fá minna í útboðinu en þeir vilja og þá sitja þeir uppi með lausafé sem þeir vilja ráðstafa aftur inn á markaðinn.“

Markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni nam um 1.798 milljörðum króna í apríl og hafði hækkað um 15 prósent frá áramótum. Hlutfall þess af vergri landsframleiðslu er 61 prósent en þá á eftir að taka skráningu Síldarvinnslunnar og skráningu Íslandsbanka með í reikninginn. Ef markaðsvirði Síldarvinnslunnar og Íslandsbanka er bætt við nemur hlutfallið rétt tæplega 70 prósentum.

Til samanburðar var það 37 prósent í apríl 2020 miðað við landsframleiðsluna árið á undan og 38 prósent í sama mánuði árið 2019.

Útboðið kostar meira en tvo milljarða

Heildarkostnaður Íslandsbanka vegna töku hlutabréfa bankans til viðskipta í Kauphöllinni er áætlaður 750 milljónir króna. Þetta kemur fram í lýsingu hlutafjárútboðsins.

Kostnaðurinn hlýst af yfirferð og staðfestingu lýsingarinnar, þar á meðal vegna yfirvinnu starfsmanna, kostnaði við töku hlutanna til viðskipta hjá Nasdaq Iceland, þóknunum til ráðgjafa auk annars kostnaðar sem tengist beint töku hlutabréfanna til viðskipta.

Sölutryggingarþóknun, aðrar þóknanir og kostnaður sem greiddur verður af ríkissjóði í tengslum við útboðið er áætlaður um 1.378 milljónir króna.

Samanlagður kostnaður Íslandsbanka og ríkissjóðs nemur því meira en 2 milljörðum króna.

Hreint andvirði til seljanda er áætlað kr. 41.236 milljónir að því gefnu að útboðsverð verði miðpunktur útboðsgengisbils, fjöldi hlutabréfa sem seldur verði sé miðpunktur milli 25 %og 31,8% af útgefnum hlutum í bankanum og heimild til að selja fleiri hlutabréf sé ekki nýtt.

Leiðrétting: Í fréttinni kom fram að afsláttur bréfa Íslandsbanka væri ríflega 50 prósent miðað við gengi bréfa Arion banka. Rétt er að bréf Arion banka eru verðlögð 50 prósentum hærra en bréf Íslandsbanka en afslátturinn er 35 prósent.