Mikil óvissa er um mögulega aðkomu lífeyrissjóðanna að hlutafjárútboði Icelandair Group, sem hefst í dag, miðvikudag, og lýkur á morgun klukkan fjögur, en þátttaka þeirra mun ráða úrslitum um hvort félaginu takist að sækja sér nýtt hlutafé fyrir allt að 23 milljarða króna.

Fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins – Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE), LSR, Gildi og Birta – halda spilunum afar þétt að sér og hafa enn ekki gefið upp hvort, og þá að hversu miklu marki, þeir muni fjárfesta í útboði flugfélagsins. Stjórnir sjóðanna, sem eru samanlagt með eignir upp á meira en þrjú þúsund milljarða króna, hafa boðað til fundar síðar í dag og snemma á morgun þar sem endanleg ákvörðun verður þá tekin um þátttöku í útboðinu.

Samkvæmt viðmælendum Markaðarins, meðal annars úr röðum lífeyrissjóðanna og eins í hópi ráðgjafa Icelandair við hlutafjárútboðið, þykir vera mest óvissa um afstöðu LIVE og Gildis. Stjórn LIVE, sem telur átta manns, kemur saman til fundar eftir hádegi í dag en talsverð gjá er á milli fulltrúa atvinnurekenda annars vegar og fulltrúa VR hins vegar í stjórninni um hvort lífeyrissjóðurinn eigi að koma að útboðinu. Sjóðurinn er í dag næststærsti hluthafi Icelandair með um 11,8 prósenta hlut.

Verði tveir af stærstu lífeyrissjóðunum, sem ætla að draga það fram á síðustu stundu að taka ákvörðun um fjárfestingu, ekki með gæti það sett verulegt strik í reikninginn með þátttöku annarra og minni sjóða og þá um leið hvort útboðið klárist.

Sumir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, nú síðast Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa tjáð sig um hlutafjárútboð Icelandair og mælt gegn því að eftirlaunasjóðir launafólks verði nýttir til að taka þátt í útboðinu. Efling skipar tvo fulltrúa í átta manna stjórn Gildis, sem er fjórði stærsti hluthafi Icelandair í dag, en þeirra á meðal er Stefán Ólafsson, formaður stjórnarinnar, en hann starfar jafnframt sem ráðgjafi Eflingar.

Verðbréfafyrirtækið Arctica Finance, sem hefur verið ráðgjafi Birtu, Gildis og LSR í aðdraganda hlutafjárútboðsins, skilaði af sér ítarlegri skýrslu, sem telur á annað hundrað blaðsíður, í lok síðustu viku til sjóðanna um Icelandair þar sem samkeppnisstaða þess var greind og lagt mat á hversu fýsilegt það væri að fjárfesta í félaginu.

Þá hafa sömu sjóðir, samkvæmt heimildum Markaðarins, einnig fengið Magnús Árna Skúlason, hagfræðing hjá ráðgjafarfyrirtækinu Reykjavík Economics, til að gera greiningu á efnahagslegum áhrifum Icelandair fyrir hagkerfið og hvaða þýðingu það hefði ef útboðið heppnaðist ekki og félagið myndi hverfa af markaði. Magnús Árni vann sambærilega skýrslu fyrir WOW air í mars 2019, skömmu áður en flugfélagið fór í greiðsluþrot.


Biðla til einkafjárfesta


Að sögn viðmælenda Markaðarins er útlit fyrir ágætis þátttöku í útboðinu á meðal verðbréfasjóða, hjá einkabankaþjónustum og eignastýringum bankanna, og eins almennum fjárfestum. Fáir einkafjárfestar eða fjárfestingafélög eru hins vegar sögð ætla að skrá sig fyrir stórum upphæðum í útboðinu enda sé áhættan við fjárfestinguna umtalsverð og lýsa sumir henni sem í reynd „afleiðu á bóluefni“. Á fjárfestafundum með stjórnendum Icelandair hefur komið fram að þeir áætli að við núverandi aðstæður, þar sem nánast allt flug félagsins liggur niðri og tekjur eru litlar sem engar, sé neikvætt sjóðsstreymi vegna rekstursins um 15 til 20 milljónir Bandaríkjadala á mánuði.

Á síðustu dögum hefur verið biðlað til fjölmargra umsvifamikilla einkafjárfesta og forsvarsmanna fjárfestingafélaga um að skuldbinda sig fyrir myndarlegum hlut í útboðinu og í kjölfarið sækjast eftir sæti í stjórn félagsins. Markmiðið hefur meðal annars verið að fá hóp einkafjárfesta, sem hver um sig myndi fjárfesta fyrir mögulega hundruð milljóna, til að taka að sér leiðandi hlutverk, í samfloti með lífeyrissjóðunum, og auka um leið líkur á góðri þátttöku í útboðinu. Sú vinna hafði hins vegar enn ekki borið árangur síðla dags í gær, samkvæmt heimildum.

Sölutryggja 6 milljarða


Icelandair freistar þess sem fyrr segir að auka hlutaféð með því að selja nýja hluti á genginu 1 króna á hlut fyrir alls 20 milljarða króna. Komi til umframeftirspurnar mun stjórn hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að þrjá milljarða. Þá hefur félagið náð samkomulagi við Íslandsbanka og Landsbankann um sölutryggingu og munu bankarnir kaupa hlutafé fyrir allt að sex milljarða króna ef ekki næst að selja allt sem boðið er út.

Áætlanir Icelandair gera meðal annars ráð fyrir að flugframboð félagsins aukist jafnt og þétt. Árið 2024 verði framboðið komið í sama horf og það var árið 2018. Þá er gert ráð fyrir að tekjur félagsins hafi hækkað upp í 1,6 milljarða dala árið 2024 og verði þannig um þremur prósentum hærri en þær voru í fyrra.

EBIT, rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta, tekur hressilega við sér árin 2023 og 2024 og verður kominn í 175 milljónir dala árið 2024. Til samanburðar var EBIT 134 milljónir dala árið 2015 og 113 milljónir dala árið 2016.