Launavísitalan hækkaði um 0,7 prósent milli ágúst og september samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

„Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,7%, sem er svipaður árstaktur og verið hefur síðustu mánuði. Hækkun launavísitölunnar í september var óvenju mikil miðað við síðustu mánuði og að lítið ætti að vera að gerast í þessum efnum,“ segir í Hagsjánni.

Þá segir jafnframt að vísitalan hækki að jafnan meira í september en mánuðina á undan og eftir. Launavísitalan hefur hækkað um samtals 6,4 prósent á fyrstu átta mánuðum ársins.

Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans er spáð það miklum hagvexti í ár að ákvæði lífskjarasamningsins um hagvaxtarauka koma líklega til framkvæmda í maímánuðum, bæði 2022 og 2023, gangi spáin eftir.

„Samkvæmt gildandi kjarasamningum munu laun hækka þann 1. janúar 2022 og svo líklega aftur þann 1. maí. Kjarasamningar renna almennt út í lok október 2022, en engu að síður verður líklega ein launahækkun eftir á árinu 2023 sem byggir á þeim,“ segir í Hagsjánni.