Gísli Þorsteinsson hefur verið markaðsstjóri Origo frá árinu 2011 og leitt vörumerkisbreytingu fyrirtækisins sem varð í byrjun síðasta árs. Gísli segir að endurmörkun Origo hafi gengið vel en hún krefjist áfram stöðugrar vinnu. Mikilvægt sé að halda vöku sinni.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef mikinn áhuga á hlaupum og fer 3-4 sinnum í viku út að hlaupa. Ég er í Hlaupahópi FH og það er góður félagsskapur. Mér finnst gott að hlaupa því ég næ að tæma hugann og oft fæðast hugmyndir (jú, maður fer stundum að hugsa um vinnuna) þegar maður er ekki við tölvuna. Þá er þetta gríðarlega góð líkamsrækt og heldur manni í góðu ásigkomulagi, sérstaklega þar sem maður er kominn á miðjan aldur. Ég reyni að hlaupa 30-60 km á viku (meira á sumrin) og finnst afar mikilvægt að ná þessum kílómetrafjölda því ég finn að hreyfingin nærir sál og líkama.

Þá hef ég töluverðan áhuga á fótbolta; æfði fótbolta með Val og Leikni í yngri flokkum og var svo í neðri deildum með Leikni í nokkur ár. Ég hef fylgst vel með Leikni síðan og það er ánægjulegt að sjá hversu félagið hefur risið á liðnum árum, nánast úr öskunni. Það þótti hálfhlægilegt að vera í Leikni á sínum tíma en það þykir flott félag í dag. Ég mæti svo sem ekkert mikið á leiki með þeim en fylgist með meira í fjarlægð og sendi góða strauma.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ætli það sé ekki eins og hjá mörgum, ég þarf að fá kaffi. Ég byrjaði að drekka kaffi frekar seint á lífsleiðinni, leiddist eiginlega út í kaffidrykkju þegar ég var í MBA-námi fyrir 10 árum. Maður varð stundum syfjaður í löngum kennslulotum og þá kom kaffið að góðum notum. Síðan þá hef ég kunnað að meta þennan drykk betur og betur. Kaffi er vitanlega ekki alls staðar eins og mér er minnisstætt frábært kaffi sem ég fékk í Litlu-Havana á Miami fyrir nokkrum árum.

drættir.PNG

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ætli það séu ekki bækur Böðvars Guðmundssonar um íslenska vesturfara á 19. öld. Raunar eru þetta tvær bækur, Híbýli vindanna og Lífsins tré. Það sem stendur upp úr er að lífið á Íslandi var streð og raunar svo stutt síðan að við fórum að hafa það gott hér á landi í sögulegu tilliti. Mér hefur ávallt fundist sögulegar bækur áhugaverðar enda finnst mér þýðingarmikið að kunna góð skil á fortíðinni til þess að geta tekist á við framtíðina. Ég er svo sem enginn bókaormur en ég hef staðið mig í auknum mæli að því að hafa gaman af ljóðum og festi nýlega kaup á nýjustu ljóðabók Þórarins Eldjárns, Til í að vera til. Mér finnst gaman að grípa niður í hana og lesa fáein ljóð. Það er fróðlegt að sjá hvernig hægt er að vinna með tungumálið.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin hjá þér á síðustu mánuðum?

Endurmörkun Origo stendur vitanlega upp úr, en við erum enn að vinna áfram með nýtt vörumerki, sem áður var Nýherji, TM Software og Applicon. Þó að endurmörkunin hafi gengið nokkuð vel og vörumerkið Origo orðið vel þekkt, ekki síst fyrir hvað það stendur, þá er þetta stöðug vinna og mikilvægt að halda vöku sinni. Mér finnst einnig afar mikilvægt að þróa markaðsstarf Origo áfram. Við viljum stöðugt bæta okkur. Við höfum að undanförnu Lean-vætt starf markaðsdeildarinnar til þess að bæta þjónustuna innanhúss og auka skilvirkni. Þá erum við að þróa áfram Inbound marketing aðferðafræði til þess að laða viðskiptavini enn betur að lausnum Origo og auka sjálfvirkni í markaðssetningu. Þetta er afar spennandi vegferð sem unnin er með sænsku ráðgjafarfyrirtæki sem ég er sannfærður um að muni stórefla markaðsstarf Origo til skemmri tíma. Á sama tíma er afar mikilvægt að halda vörumerkinu Origo á lofti því skilvirk vörumerkjastefna skiptir miklu máli fyrir fyrirtæki til lengri tíma.

Hvernig hefur rekstrarumhverfi Origo breyst á undanförnum árum og hvaða áskoranir hafa falist í þessum breytingum?

Origo hefur breyst afar hratt og helstu vaxtarbroddar eru í hugbúnaðarlausnum og viðskiptalausnum. Félagið er óþreytandi að bæta við sig einingum á þessu sviði og þróa eigin lausnir. Mér finnst Origo á ótrúlega skemmtilegri vegferð og gaman að fá tækifæri að vinna hjá fyrirtæki sem er ávallt með annan fótinn í framtíðinni.

Hvaða tækifæri eru fram undan á þínu sviði?

Ég veit varla hvar á að byrja. Það að vinna í markaðsmálum í dag er fáránlega skemmtilegt. Fyrir einhverjum árum var nóg að auglýsa á síðu þrjú í Mogganum og ná þannig til allra landsmanna en nú eru boðleiðirnar miklu fleiri. Þá er ótrúlega mikli gróska í faglegu markaðsstarfi sem er gaman að kynnast og nýta sér í sínu starfi.

Hvers hlakkarðu mest til þessa dagana?

Það er einfalt; að vera með fjölskyldunni minni.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Ég er afar lánsamur að eiga konu og fjögur börn. Vonandi eigum við í fjölskyldunni eftir að vera heilbrigð og hamingjusöm eftir 10 ár.