Umsvifin í höfn Þorlákshafnar jukust um 23 prósent á milli áranna 2019 og 2020, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. „Staðan núna er samt bara reykurinn af réttinum. Við erum núna að leggja af stað í gríðarlega miklar framkvæmdir sem koma til með að auka enn þjónustuna,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Þorlákshafnar. Reiknað sé með að framkvæmdir fyrir á fimmti milljarð króna muni ljúka innan þriggja ára.

Elliði segir að horft sé til þess að Þorlákshöfn verði helsta vöruhöfn Íslands á næstu tveimur áratugum.

Umsvifamestu hafnir landsins á árinu 2020 voru sem fyrr Reykjavík, Grundartangi, Straumsvík og Mjóeyri við Reyðarfjörð, samkvæmt gögnum Hagstofunnar.

„Ef frá er talin Faxaflóahöfn eru það eingöngu álhafnirnar í Straumsvík og Reyðafirði sem losa og lesta fleiri tonnum,“ segir Elliði í samtali við Markaðinn.

Elliði segir að í samstarfi við Smyril Line hafi bæjaryfirvöld Þorlákshöfn sett sér það markmið fyrir nokkrum árum að verða helsta vöruhöfn á landinu. „Við erum núna að sjá fyrstu birtingarmyndir þess að markmiðinu verði náð. Höfuðáhersla okkar hvað vöxt varðar er á almennan vöruflutning til og frá landinu auk síðan þjónustu við sjávarútveginn og nú hefur þeirri stöðu verið náð að Þorlákshöfn er fimmta umsvifamesta höfn landsins og nemur aukningin 23 prósent í flutningum á milli áranna 2019 og 2020,“ segir hann.

Úthluta fleiri lóðum á næstu dögum

Elliði segir að það hafi afar víðtæk áhrif á samfélagið enda höfnin hér ein af burðarásum atvinnulífsins. „Í dag er staðan til dæmis sú að nánast öllum iðnaðarlóðum í Þorlákshöfn hefur verið úthlutað. Til að lenda ekki í skorti á iðnaðarlóðum réðumst við strax í skipulagningu á nýjum lóðum sem koma til úthlutunar á næstu dögum,“ segir hann.

Að hans sögn fari það ekki á milli mála að markaðurinn fylgist vel með og fyrirtæki í bæði inn- og útflutningi séu fljótir að átta sig á kosti þess að staðsetja sig við eina stærstu vöruhöfn landsins.

„Það er líka alveg ljóst að markaðurinn sér þjónustunet Smyril Line sem afar álitlega enda þar á ferðinni félag með einbeittan vilja til að veita frábæra þjónustu á hagstæðum verðum. Til að mynda munum við koma allt að 200 metra löngum skipum til þjónustu hér eftir framkvæmdina en núna er allt umfram 140 metra frekar þröngt. Þessar framkvæmdir koma til með að kosta vel á fimmta milljarð og við reiknum með að þær hefjist núna í nóvember og ljúki innnan þriggja ára. Á tíu ára planinu erum við svo með enn stærri áætlun sem gerir hreinlega ráð fyrir nýrri höfn hér norðan við núverandi höfn en þó sambyggða. Við erum sem sagt með augun á þeim bolta að Þorlákshöfn verði helsta vöruhöfn Íslands á næstu tveimur áratugum,“ segir Elliði.

Einugnis þrjár fasteignir til sölu

Elliði segir að uppbygging hafnarinnar fylgi mikil atvinnutækifæri og tiltrú á framtíð þessa svæðis. „Við sáum þetta til að mynda í ásókn í búsetu hér því fjölgun íbúa hér er hröð og var reyndar hlutfallslega sú mesta á landinu fyrri hluta þess árs og nam um 3,4 prósent á sex mánuðum. Ekki spillar þar fyrir að íbúar hér mælast þeir ánægðustu á landinu öllu. Reyndar er það svo að í dag eru ekki nema þrjár fasteignir til sölu í öllu sveitarfélaginu og því liggur nærri að segja að Ölfusið sé uppselt. Við því bregðumst við á einfaldan hátt og því munum við á næstu dögum ekki bara auglýsa nýjar iðnaðalóðir heldur einnig lóðir undir fjöldan allan af íbúðarhúsnæði,“ segir hann.