Viðskipti Mikil aukning var á innflæði í hlutabréfasjóði í nóvember. Innflæðið nam 2,8 milljörðum króna en hafði verið 612 milljónir króna að meðaltali undanfarna fimm mánuði. Nóvember var sjötti mánuðurinn í röð þar sem fé streymdi í hlutabréfasjóði. Fjárfestar brugðust við óvissu sem rekja má til COVID-19 með því að draga fé úr hlutabréfasjóðum í febrúar til maí. Þetta kemur fram í gögnum frá Seðlabanka Íslands.

Mogens Gunnar Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, segir að það stefni í að innflæði í hlutabréfasjóði Íslandssjóða verði enn meira í desember en í nóvember. Almenningur sé að fjárfesta í auknum mæli í hlutabréfum vegna þess að vaxtalækkanir hafi haft það í för með sér að vextir á bankabókum og ríkisskuldabréfum séu nú lágir. Einnig spili inn í að bólusetning gegn COVID-19 sé hafin og því sé minni óvissa fram undan í efnahagslífinu en lágt vaxtastig hafi þó meira að segja um aukinn áhuga á hlutabréfakaupum.

„Við gerum ráð fyrir áframhaldandi innflæði á hlutabréfamarkað á næsta ári í ljósi lægra vaxtastigs í landinu. Vextir eru lágir og til lengri tíma munu þeir haldast lægri en áður hefur þekkst. Almenningur og aðrir fjárfestar munu því í ríkari mæli færa fé úr lágvaxtaeignum yfir í áhættumeiri eignir eins og hlutabréf til að reyna að tryggja sér ásættanlega ávöxtun,“ segir hann.

Mogens Gunnar bendir á að vaxandi áhugi á hlutabréfum endurspeglist meðal annars í því að fjöldi viðskipta í Kauphöllinni hafi vaxið verulega og veltan sé góð. „Almenningur er því ekki einungis að fjárfesta í hlutabréfasjóðum heldur einnig í einstaka félögum á hlutabréfamarkaði,“ segir hann.

Fram kom í Markaðinum í gær að tólf ára gamalt met hefði verið slegið í fjölda viðskipta á hlutabréfamarkaði á einni viku í viku 50, 7. til 11 desember. Vikan á eftir hafi verið sú sjöunda stærsta frá haustinu 2008.

Velta sem hlutfall af markaðsvirði skráðra félaga nemur fimm prósentum það sem af er desember en hefur verið 4,1 prósent það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Frá október 2019 fram í janúar 2020 var stanslaust innflæði í hlutabréfasjóði þegar fjárfestar lögðu þeim til meira fé en tekið var úr þeim. Þegar COVID-19 blossaði upp með tilheyrandi óvissu um hver áhrifin yrðu á efnahagslífið drógu fjárfestar fé úr sjóðunum í meira mæli en lagt var inn. Í febrúar námu nettó úttektir 2,4 milljörðum króna úr sjóðunum, 2,2 milljörðum í mars og samtals 838 milljónum í apríl og maí. Samtals var um að ræða 5,4 milljarða króna. Það sem af er ári er uppsafnað nettó innflæði 2,3 milljarðar króna. helgivifill@frettabladid.is