Fjölmargir einstaklingar, allt að 30 manns, hafa áhuga á að komast í stjórn hjá Festi. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins og er ásóknin talin fyrirboði breytinga. Ný stjórn verður kosin á aukalegum hluthafafundi sem boðað hefur verið til 14. júlí næstkomandi. Frestur til að skila framboðum til nýrrar stjórnar rann út í vikunni.

Guðjón Reynisson, stjórnarformaður í Festi, vill gegna stöðu sinni áfram. Ekki liggur fyrir hvort allir aðrir stjórnarmenn í Festi gefa kost á sér. Líklegt er að allir fimm stjórnarmennirnir hafi sent nöfn sín til tilnefningarnefndar. Ef tilnefningarnefnd tilnefnir ekki núverandi meðlimi stjórnar eiga stjórnarmeðlimir kost á að draga framboð sín til baka.

Enginn vill koma fram undir nafni í ljósi þess hve málið er sagt viðkvæmt.

Fyrirhuguð hallarbylting hefur sumpart verið sögð tengjast því markmiði að ný stjórn reyni að endurráða Eggert Þór Kristófersson sem forstjóra. Starfslok Eggerts vöktu uppnám og athygli, enda hefur rekstur félagsins gengið vel undir hans forystu. Heimildarmönnum blaðsins ber ekki saman um hvort Eggert sé líklegur til að þiggja stöðuna ef ný stjórn býður honum forstjórastólinn á ný. Margir hluthafar vilja vita hvort gerður hafi verið starfslokasamningur við Eggert til eins árs eða þriggja ára. Sennilega munu þau gögn ekki verða opinber fyrr en í ársreikningi.

Tilnefninganefndin mun skila skýrslu með tillögum um stjórnarmenn þriðjudaginn 5. júlí næstkomandi, rúmri viku fyrir hluthafafundinn. Fundurinn verður opinn fjölmiðlum.

Núverandi stjórn Festar skipa Guðjón, sem tók sæti í stjórninni árið 2014, Margrét Guðmundsdóttir er varaformaður, reyndust í stjórninni, hún hóf stjórnarstörf hjá N1 árið 2011 og var formaður Festar til mars 2020. Þórey G. Guðmundsdóttir hefur setið í stjórninni síðan í mars 2020. Sigrún Hjartardóttir tók sæti á aðalfundi félagsins í ár og sömu sögu er að segja um Ástvald Jóhannsson.