„Þótt svona stjórnsýsla hafi í áranna rás verið hugmyndauppspretta höfunda ódauðlegra listaverka, eins og „Yes Minister“ eða „Little Britain“, finnst fyrirtækjum sem hljóta þessa meðferð það yfirleitt ekki fyndið,“ segir meðal annars í umsögn félags atvinnurekenda um frumvarp til laga um framhald lokunarstyrkja.
Þar er sögð saga af fyrirtæki sem var í hópi þeirra sem fengu ekki lokunarstyrk í fyrstu bylgju faraldursins árið 2020, af því að skattayfirvöld töldu að það hefði getað haldið úti starfsemi í einhverri mynd, í stað þess að loka fyrirtækinu. Yfirskattanefnd staðfesti ákvörðun Skattsins þess efnis.
„Það er að sjálfsögðu gjörsamlega óþolandi fyrir fyrirtæki að vera sett í þá stöðu að loka starfsemi sinni í góðri trú, haldandi að þar með sé verið að taka þátt í mikilvægum sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda, en svo leggi embættismenn Skattsins og yfirskattanefnd á sig mikla vinnu við að finna leiðir til að greiða þeim ekki lokunarstyrk,“ segir í umsögninni.
Þá er bent á að enginn atvinnurekandi geri sér að leik að loka starfseminni og gera sjálfan sig tekjulausan og að í framtíðinni muni fyrirtæki hugsa sig vel um hvort þau loki, komi svipuð staða upp aftur.
„Óhætt er að álykta að reynsla fyrirtækisins, sem hér er fjallað um, af framkvæmd á lokunarstyrkjaúrræðum stjórnvalda er á þann veg að forsvarsmönnum þess myndi ekki detta í hug að fara eftir fyrirmælum um að loka starfseminni, kæmi sú staða upp í framtíðinni í samhengi þessa faraldurs eða annarra.“