„Þótt svona stjórn­sýsla hafi í áranna rás verið hug­mynda­upp­spretta höfunda ó­dauð­legra lista­verka, eins og „Yes Mini­ster“ eða „Litt­le Britain“, finnst fyrir­tækjum sem hljóta þessa með­ferð það yfir­leitt ekki fyndið,“ segir meðal annars í um­sögn fé­lags at­vinnu­rek­enda um frum­varp til laga um fram­hald lokunar­styrkja.

Þar er sögð saga af fyrir­tæki sem var í hópi þeirra sem fengu ekki lokunar­styrk í fyrstu bylgju far­aldursins árið 2020, af því að skatta­yfir­völd töldu að það hefði getað haldið úti starf­semi í ein­hverri mynd, í stað þess að loka fyrir­tækinu. Yfir­skatta­nefnd stað­festi á­kvörðun Skattsins þess efnis.

„Það er að sjálf­sögðu gjör­sam­lega ó­þolandi fyrir fyrir­tæki að vera sett í þá stöðu að loka starf­semi sinni í góðri trú, haldandi að þar með sé verið að taka þátt í mikil­vægum sótt­varna­að­gerðum stjórn­valda, en svo leggi em­bættis­menn Skattsins og yfir­skatta­nefnd á sig mikla vinnu við að finna leiðir til að greiða þeim ekki lokunar­styrk,“ segir í um­sögninni.

Þá er bent á að enginn at­vinnu­rekandi geri sér að leik að loka starf­seminni og gera sjálfan sig tekju­lausan og að í fram­tíðinni muni fyrir­tæki hugsa sig vel um hvort þau loki, komi svipuð staða upp aftur.

„Ó­hætt er að á­lykta að reynsla fyrir­tækisins, sem hér er fjallað um, af fram­kvæmd á lokunar­styrkja­úr­ræðum stjórn­valda er á þann veg að for­svars­mönnum þess myndi ekki detta í hug að fara eftir fyrir­mælum um að loka starf­seminni, kæmi sú staða upp í fram­tíðinni í sam­hengi þessa far­aldurs eða annarra.“