Stjórnendur Microsoft hafa leitað til forsvarsmanna Pinterest að undanförnu í því skyni að kaupa samfélagsmiðilinn á 51 milljarð dala. Það er jafnvirði 6.559 milljarða króna. Pinterest nýtur vinsælda meðal annars hjá áhugafólki um innanhúshönnun og mat.

Í frétt Financial Times segir að viðræður standi ekki yfir sem stendur. Stjórnendur Pinterest hafa gefið til kynna að þeir vilji ekki fara í faðm fyrirtækjasamstæðu heldur vilja þeir að fyrirtækið verði áfram rekið óháð öðrum.

Pinterest hækkað um 600 prósent í COVID-19

Markaðsvirði Pinterest, sem skráð var á hlutabréfamarkað árið 2019, hefur hækkað um 600 prósent í COVID-19 heimsfaraldrinum. Á sama tíma hefur gengi hlutabréfa Microsoft hækkað um tæplega 80 prósent.

Ben Silbermann, forstjóri Pinterest, þegar félaginu var fleytt á hlutabréfamarkað.
Fréttablaðið/EPA

Microsoft horfir til þess að byggja upp eignasafn um á samfélögum á netinu sem keyra má á skýjalausn fyrirtækisins.

Vildu kaup bandaríska hluta TikTok

Fram hefur komið í fréttum að Microsoft reyndi að festa kaup á bandaríska hluta TikTok, sem er kínverskt fyrirtæki, þegar Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkja setti þrýsting á sölu af öryggisástæðum. TikTok er samfélagsmiðill sem byggir á stuttum myndböndum frá notendum.

Eiga LinkedIn og Minecraft

Microsoft hefur ráðist í ýmsar yfirtökur á undanförnum árum. Tæknirisinn keypti til dæmis LinkedIn fyrir 26 milljarða dollara árið 2016, tölvuleikinn Minecraft fyrir 2,5 milljarða dala árið 2014 og tölvuleikjafyrirtækið ZeniMax fyrir 7,5 milljarða dala í fyrra.