Jakobsson Capital metur gengi hlutabréfa Play á 24,5 krónur á hlut sem er 19 prósent yfir markaðsgengi félagsins. Þetta kemur fram í nýju verðmati sem gefið var út þann 16. september síðastliðinn.

Markaðsvirði félagsins nemur tæplega 15 milljörðum króna en verðmatið hljóðar upp á 17 milljarða.

Jafnframt kemur fram að svo virðist sem Íslendingar séu ekki að ferðast til útlanda í jafnmiklum mæli og fyrir Covid.

„Uppgjör olíudreifingarfyrirtækjanna og tölur Hagstofunnar komast að sömu niðurstöðu. Íslendingar ferðuðust innanlands í sumar. Reyndar var greinanda brugðið þegar að hann skoðaði tölur um fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll eftir ríkisfangi. Íslendingar eru bara ekkert að ferðast. Ef árið 2020 er undanskilið þarf að fara til árana 2009 og 2010 til að finna jafn lélegan júlí og ágúst,“ segir í verðmatinu.

Erfitt fyrir Play að ná markmiðum

Í verðmatinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að tekjur Play verði um 14,6 milljónir dollara í ár en í eldri áætlun hafi verið gert ráð fyrir að tekjur yrðu rúmlega 25 milljónir dollara. „Tap verður því af rekstri upp á 20,6 milljónir dollara árið 2021. Það er umtalsvert meira tap en í fyrri áætlun. Það hefur þó lítið að segja í heildarmyndinni Stóra breytingin er sú að nú er gert ráð fyrir þungu ári í rekstri árið 2022. Play mun vera nokkuð langt frá markmiðum sínum um fjölda farþega og tekjur. Covid mun halda aftur að Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Þótt árið 2022 í flugrekstri verði allt annað en árið í ár. Þá mun það enn litast af Covid.“

Þá kemur fram að tekjur muni verða 148 milljónir dollara árið 2022. „EBITDA verður neikvætt árið 2022 um 1,6 milljónir dollara samanborið við 18,5 milljónir dollara neikvætt EBITDA árið 2021. Hins vegar mun lítið draga úr tapinu eftir skatt. Sex flugvélar eru á rekstrarleigu og meiri umsvifum fylgja langtum hærri afskriftir og fjármagnskostnaður. Tap eftir skatt verður því litlu minna. Seinni hluta árs 2023 mun flugmarkaðurinn fara á flug. EBITDA verður því jákvætt um 30,7 milljónir,“ segir í verðmatinu.

Flugtak 2023?

Fram kemur að svo virðist sem viðsnúningur á flugmarkaði verði ekki jafn snöggur og margir bjuggust við. Að öllum líkindum muni hann ekki taka við sér fyrr en 2023. „Það sem skiptir öllu máli er hvenær Íslendingar fara að ferðast meira og hvenær flugmarkaður tekur fyrir alvöru við sér. Sú sviðsmynd sem er dregin upp nú, gerir því ráð fyrir að flugtak verði seinna eða seinni hluta árs 2023. Mikil óvissa er hér. Flugtak gæti orðið fyrr en það gæti líka orðið enn seinna.“

Greinandi telur að erfitt gæti reynst að ná rekstrarhagnaðarhlutfalli sem fari verulega yfir 8 prósent.

„Eftir sem áður er stuðst við þá sviðsmynd að þegar að ferðaþjónustan verður komin á fullt skrið að óumflýjanleg styrking verði á gengi krónu. Samkeppni muni aukast samfara vaxandi arðbærni þess að fljúga til og frá Íslandi. Sömuleiðis að launaskrið muni aukast verulega innan flugstéttarinnar.“