Jakobsson Capital metur gengi Ice­landair á 2,59 krónur á hlut sem er 49 prósentum yfir núverandi markaðsgengi félagsins sem stendur í 1,74 krónum á hlut. Þetta kemur fram í nýútgefnu verðmati Jakobsson Capital. Þar segir jafnframt að ansi langt sé í land að fjöldi ferðamanna og ferðamannastraumur verði sá sami og fyrir Covid.

Snorri Jakobsson hjá Jakobsson Capital

„Jakobsson Capital þykir flugmenn ansi bjartsýnir fyrir næsta ár. Tekjur Icelandair á þriðja ársfjórðungi námu 257,5 milljónum dollara samanborið við 103,6 milljónir dollara á sama tíma árið áður. Tekjur af flugi nærri fjórfölduðust. Á meðan aðrar tekjur og tekjur af flugvélaleigu jukust óverulega samanlagt. Tekjur Icelandair á öðrum ársfjórðungi námu 77,5 milljónum dollara og nærri þrefölduðust milli ársfjórðunga,“ segir í verðmatinu.

Jafnframt segir að mikill niðurskurður hafi verið hjá Icelandair á síðasta ári og niðurskurður á flestum kostnaðarliðum.

„Það kemur sér vel nú en verð olíu á heimsmarkaði hefur hækkað um 60 prósent frá ársbyrjun. Þess má geta að Icelandair er með eldsneytisvarnir, auk þess sem nýjar Boeing Max-vélar eru mun sparneytnari en eldri vélar.“Þá kemur fram að vísbendingar séu um að vertíðin fram að jólum verði góð en tekjurnar verði þó ekki jafnháar og í sumar. „Fjárhæð seldra en ónotaðra flugmiða nam 123 milljónum dollara í lok þriðja ársfjórðungs samanborið við 168 milljónir í lok annars ársfjórðungs. Tekjuáætlun hefur verið hækkuð verulega fyrir árið í ár. Í þessu samhengi má ekki gleyma að fraktflutningar hafa verið með besta móti og allt útlit fyrir áframhaldandi tekjuvöxt þar næstu mánuði.“

Jakobsson Capital gerir því ráð fyrir að tekjur Icelandair verði 625,5 milljónir dollara árið 2021 samanborið 433,6 milljónir dollara árið 2020. Eldri spá gerði ráð fyrir um 500 milljóna dollara tekjum í ár.„Samfara því að tekjuspá og tekjugrundvöllur Icelandair er allt annar en fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan næst betra rekstrarkostnaðarhlutfall (EBIT-hlutfall). Það er gert ráð fyrir því að það verði neikvætt um 18,6 prósent og að rekstrartap (EBIT) verði 116,3 milljónir.“