MeToo-byltingin hafði varanleg áhrif á hlutabréfaverð þeirra fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll, í kjölfar þess að starfsmenn urðu uppvísir að kynferðislegri áreitni. Tveimur dögum eftir að upp komst um framferði þeirra lækkaði gengi hlutabréfa fyrirtækjanna um 1,5 prósent en hlutabréfaverðið leitaði síðan jafnvægis og var um 0,8 prósentum lægra en áður, tveimur vikum eftir að fyrsta frétt um brotið birtist. Þetta segir Úlf Níelsson, prófessor við Háskóla Íslands.

„Það er álíka mikil lækkun og af öðrum alvarlegum hneykslismálum. Þegar forstjóri er sakaður um kynferðislega áreitni verður lækkunin mun meiri, eða sem nemur 6,5 prósentum. Segja má að dauðasyndin í viðskiptalífinu sé þegar fyrirtæki greina ekki satt og rétt frá bókhaldi sínu. Lækkunin sem rekja má til frétta af kynferðislegri áreitni forstjóra er jafn mikil og af bókhaldsbrotum. Hlutabréfamarkaðurinn lítur kynferðislega áreitni alvarlegum augum. Í 15 prósentum tilvika var um forstjóra fyrirtækjanna að ræða,“ segir hann.

Úlf fór fyrir rannsókn á áhrifum MeToo-byltingarinnar á hlutabréfaverð, sem birtist nýverið í fræðiritinu The Journal of Corporate Finance. Fréttablaðið greindi frá frumniðurstöðunum í nóvember árið 2019.

Úlf Níelsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Mynd/Aðsend

Í rannsókninni voru teknar fyrir fréttir á ensku og áttu 78 prósent tilvika sér stað í Bandaríkjunum, flest önnur í Englandi og Ástralíu. Um var að ræða um 200 tilvik, þar sem starfsmenn voru sakaðir um kynferðislega áreitni. Í helmingi þeirra var um munnlega áreitni að ræða en helmingur var líkamleg áreitni. Þolendur voru í 90 prósentum tilvika konur en 10 prósentum karlar. Yfirleitt var um einn þolanda að ræða, eða í ¾ tilfella, en í 15 prósentum tilvika voru þolendur sex eða fleiri.

Líklegra er að fjallað sé um kynferðisbrot starfsmanna fyrirtækja á neytendamarkaði í fjölmiðlum en þeirra sem starfa á fyrirtækjamarkaði. „Ef til vill rata frekar fréttir í fjölmiðla um fyrirtæki sem fólk almennt þekkir,“ segir hann.

Úlf segir að þegar lækkanir hafi verið skoðaðar hafi verið tekið tillit til almennra verðbreytinga á hlutabréfum í rannsókninni. Ef, sem dæmi, markaðurinn hafi lækkað um tvö prósent og fyrirtækið líka hafi engin MeToo-áhrif mælst.

Meiri lækkun þegar fjölmiðlaumfjöllun var mikil

Hann segir að lækkun hlutabréfaverðs hafi verið meiri þegar mikið var fjallað um brotið í fjölmiðlum. „Ef til vill segir það sína sögu um hve alvarlegt brotið var,“ segir Úlf og bætir við að það sé í raun almenningsálitið, það hve mikill álitshnekkirinn sé, sem ráði hvernig hlutabréfaverð þróist eftir að upp kemst um háttsemina.

„Starfsmenn fyrirtækja með góða stjórnarhætti eiga síður á hættu að verða uppvísir að kynferðislegri áreitni. Eins lækkar gengi hlutabréfa þeirra fyrirtækja ekki jafn mikið þegar forstjórinn er settur í leyfi eða honum er sagt upp, um leið og fréttirnar birtast. Hið sama á við um gengisþróun þeirra fyrirtækja sem upplýsa sjálf um kynferðisbrot starfsmanna í stað þess að hluthafar lesi um þau í fjölmiðlum.

Það er afar kostnaðarsamt fyrir hluthafa þegar upp kemst um kynferðisbrot, eins og lækkanir hlutabréfaverðs bera með sér. Það er því til mikils að vinna að róa öllum árum að því að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustað. Að sama skapi er fjárhagslega skynsamlegt fyrir hluthafa að brugðist sé við með réttum hætti,“ segir hann.

MeToo-hreyfingin spratt upp haustið 2017 eftir að ásakanir gegn leikstjóranum Harvey Weinstein komust í hámæli.

Úlf segir að lækkun hlutabréfaverðsins sé mun meiri en yfirvofandi sektir vegna brotsins. „Greiðsla sekta getur því ekki útskýrt hvers vegna hlutabréfin lækka jafn mikið og raun ber vitni. Aðrir hafa nefnt til sögunnar að það geti reynst kostnaðarsamt að skipta um forstjóra. Aftur á móti sýna dæmin, þegar forstjóra er skipt út hratt eftir að upp kemst um kynferðisbrot, að sú kenning á ekki við rök að styðjast enda lækkar hlutabréfaverð ekki jafnmikið í þeim tilvikum,“ segir hann.

Eftir MeToo-byltinguna er kynferðisleg áreitni starfsmanna fjórum sinnum líklegri til að rata í fjölmiðla. „Kynferðisleg áreitni er því orðin meiri áhættuþáttur fyrir fyrirtæki – skilningur á því er af hinu góða – og hefur í för með sér að það borgar sig fyrir hluthafa að tekið sé föstum tökum á þessum málum. Mikil fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi,“ segir Úlf.

Engin áhrif í afturhaldssömum löndum

MeToo-byltingin hafði ekki áhrif á hlutabréf í löndum þar sem viðhorf til kvenna eru afturhaldssöm, þar sem til dæmis er ætlast til að þær sinni eingöngu heimili og starfi ekki utan veggja þess. „Það segir okkur, ásamt öðrum þáttum, að almenningsálitið er það sem knýr áfram gengislækkanir fyrirtækja sem verða uppvís um kynferðisega áreitni,“ segir Úlf.