Metfjölgun var á meðal nýrra áskrifenda hjá Spotify. Engu að síður skilaði félagið rekstartapi á árinu 2019, segir í frétt Financial Times.

Áskrifendum að tónlistarstreymisveitunni fjölgaði um 11 milljónir á fjórða ársfjórðungi, sem er tveimur milljónum meira en greinendur höfðu vænst, og voru notendur 124 milljónir við lok árs. Veltan jókst um 24 prósent á milli ára á ársfjórðunginum.

Spotify ber höfuð og herðar yfir keppinauta sína með 271 milljón notendur, þar á meðal eru þeir sem ekki greiða áskrift. Til samanburðar er tónlistarstreymisveita Amazon með 55 milljónir notenda og Apple upplýsti síðastliðið sumar að slíkir notendur töldu 60 milljónir.

Spotify horfir til hlaðvarps til að aðgreina sig frá keppinautum. Fyrirtækið varði hundruð milljónum evra í að kaupa sprotafyrirtæki á því sviði, má nefna Gimlet Media, Anchor og Parcast.

Stjórnendur Spotify hafa varað fjárfesta við að í ár verði fjárfest verulega í hlaðvarpi.

Félagið, sem greiðir megnið af tekjum sínum í höfundarréttargreiðslur til tónlistariðnaðarins, tapaði 77 milljónum evra á fjórðungnum og var með 1,86 milljarða evra í tekjur.