Tólf ára gamalt met var slegið í fjölda viðskipta á hlutabréfamarkaði á einni viku í viku 50, 7.-11. desember. Vikan á eftir var sú sjöunda stærsta frá haustinu 2008. Þetta kemur fram í gögnum sem Markaðurinn bað Kauphöllina að taka saman.

„Ég held að þetta sé forsmekkurinn af því sem koma skal,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. Hann gerir ráð fyrir því að almenningur muni halda áfram að fjárfesta í hlutabréfum á nýju ári og að erlendir fjárfestar komi þegar líður á vorið.

Mest voru viðskipti með hlutabréf Icelandair á umræddu tímabili í desember eða í 68 prósentum tilvika í viku 50 og 52 prósentum tilvika vikuna á eftir. Fjöldi viðskipta í fyrri vikunni var 3.427 og 1.962 í seinni vikunni. Aldrei hafa verið meiri viðskipti í Kauphöllinni í einum mánuði með nokkurt félag.

Magnús segir spila inn í mikil viðskipti að á sama tíma og almenningur sé að fjárfesta í auknum mæli í hlutabréfum bárust jákvæð tíðindi af bóluefni gegn COVID-19.