Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri Norðanáttar segir Fjárfestahátíð Norðanáttar vera mikilvægan vettvang fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja kynna sínar hugmyndir fyrir fjárfestum, þar með sé einnig verið að auka fjárfestingartækifæri á landsbyggðinni.
Kjarnastarfsemi Norðanáttar snýr að svokölluðum FEW-nexus eða matur- orka- vatn og þau verkefni sem taka þátt snerta á þessum áherslum með einum eða öðrum hætti.
Kolfinna segir að verkefnin sem sækja um og taka þátt snerta öll á orkuskiptum, hringrásarhagkerfinu eða fullnýtingu auðlinda. Mikið er lagt upp úr því að verkefnin sem kynnt eru á hátíðinni séu í takt við þær áherslur.

„Ástæðan er sú að þetta eru að okkar mati stóru tækifærin í atvinnuþróun fyrir landsbyggðina. Nýsköpun í kringum auðlindirnar okkar og hringrásarhagkerfis hugsun er nauðsynleg ef við ætlum að ná samkeppnisforskoti á Íslandi,” segir Kolfinna.
Hún segir að hátíðin hafi rennt svolítið blint í sjóinn á síðasta ári og að óljóst væri hvort bærinn mynd fá einhverja fjárfesta til að koma á Siglufjörð. Það varð svo að færri komust að en vildu. Hún segir alla hafa verið í skýjunum eftir viðburðinn, frumkvöðlarnir, gestir hátíðarinnar, ráðherrar sem mættu og ekki síst teymið sem stóð að skipulagningu hennar.
„Nú erum við aðeins sjóaðri í þessu og höfum fínpússað margt varðandi skipulagningu og aðkomu"
„Nú erum við aðeins sjóaðri í þessu og höfum fínpússað margt varðandi skipulagningu og aðkomu að hátíðinni og fengum frábæra einstaklinga í ráðgjafahóp til að aðstoða okkur. Í hópnum sitja fjárfestar og sérfræðingar sem vinna með fjárfestum. Einnig höfum við skipað valnefnd sem fær það skemmtilega en erfiða hlutverk að velja þau sprota- og vaxtarfyrirtæki sem fá tækifærið að kynna verkefni sín á hátíðinni. Ástæðan fyrir því að teymið fór þessa leið var einfaldlega til að skilja markhópinn okkar betur og auka virði hátíðarinnar um leið.”