Töluverður fjöldi Íslendinga mun einnig koma fram á hátíðinni og hliðarviðburðum hennar. Davíð Helgason, stofnandi Unity og fjárfestir, munu taka þátt í pallborðsumræðum um loftslagsfjárfestingar. Ráðstefnan mun einnig kynna upprennandi stjörnur í frumkvöðlaheiminum og þar munu fyrirtækin Hopp, Avó og Indó fá tækifæri til að kynna sig á stóra sviðinu. Orkufyrirtækið Snerpa Power mun taka þátt í pallborðsumræðu á vegum Norrænu nýsköpunarsetranna og hljóðtæknifyrirtækið Treble mun einnig koma fram á lokakvöldi Silicon Vikings New Nordics Pitch Competition.

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, stjórnandi Iceland Innovation Week, segir að Slush ráðstefnan laði til sín helstu fjárfesta á sviði nýsköpunar í heiminum. „Viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári en nú sækja tæplega fimm þúsund sprotafyrirtæki og næstum þrjú þúsund fjárfestingarsjóðir Helsinki heim,“ segir Melkorka. Hún bætir við að ráðstefnan verði stærri í sniðum en áður, en rúmlega hundrað manns skipa íslensku sendinefndina.

„Það er öflug flóra af sprotum á Íslandi sem eru í mikilli markaðssókn. Slush er kjörinn vettvangur til að komast í tengsl við fjárfesta til að fjármagna vöxtinn sem fram undan er,“ segir Melkorka.

Íslandsstofa og Iceland Innovation Week standa fyrir tveimur viðburðum í samstarfi við sendiráðið í Helsinki fyrir íslensku fyrirtækin og vísisjóðina. Sá fyrri var haldinn í íslenska sendiráðinu í Helsinki í gær og seinni viðburðurinn verður í dag en þá gefst fjárfestum tækifæri til að spjalla betur við fulltrúa íslensku sprotafyrirtækjanna.