Þrjátíu og níu íslensk fyrirtæki munu fara á nýsköpunarráðstefnuna Slush sem haldin verður í Finnlandi í dag og á morgun, að sögn Jarþrúðar Ásmundsdóttur, fag­stjóra hjá Íslandsstofu. „Aldrei hafa jafn margir farið frá Íslandi á ráðstefnuna, eða um 80 manns,“ segir hún í samtali við Markaðinn.

Þrír Íslendingar munu flytja erindi á stóra sviðinu: Ari Helgason, sem vinnur að stofnun fjárfestingasjóðs með Davíð bróður sínum, stofnanda Unity Games, Guðmundur Kristjánsson, stofnandi Lucinity sem þróað hefur gervigreind til að aðstoða banka við að koma auga á peningaþvætti, og Guðmundur Hafsteinsson, stofnandi Fractal 5 sem vinnur að þróun á hugbúnaði til að efla tengslanet fólks.

Jarþrúður Ásmundsdóttir, fag­stjóra hjá Íslandsstofu
Mynd/Aðsend

„Slush laðar til sín helstu fjárfesta á sviði nýsköpunar í Evrópu. Viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári en í ár seldist hratt upp vegna þess að sett var hámark á miðasölu í ljósi Covid-19 heimsfaraldursins,“ segir Jarþrúður. Ef marka má Facebook-síðu Slush má búast við þrjú þúsund manns.

Íslandsstofa heldur utan um tvo viðburði fyrir íslensk fyrirtæki og vísisjóði til að kynna sig annars vegar fyrir fjárfestum og hins vegar fjölmiðlum. „Þetta verður stærra í sniðum en áður. Það er öflug flóra af sprotum á Íslandi sem eru í mikilli markaðssókn. Slush er kjörinn vettvangur til að komast í tengsl við fjárfesta til að fjármagna vöxtinn sem fram undan er,“ segir Jarþrúður.

Á meðal íslenskra fyrirtækja sem sækja Slush má nefna Solid Clouds, Men&Mice, Overtune, Sportabler, Smitten og 1939 Games.