Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia, segir að farþegaflugshreyfingar á hátíðardögunum í ár verði töluvert fleiri en þær hafa verið síðastliðin ár. Flugtök og lendingar á aðfangadag, jóladag og gamlárskvöldi verða næstum því tvö hundruð.
„Hreyfingar yfir þessa þrjá daga eru 192 í ár samanborið við 157 árið 2019 – það er, síðustu jól og áramót fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn. Flestar ferðir eru til og frá London, Kaupmannahöfn og Osló. Þetta sýnir enn frekar hve endurheimtin á Keflavíkurflugvelli hefur gengið vel,“ segir Grétar.
Hreyfingarnar til og frá Keflavíkurflugvelli í ár munu skiptast í 107 komur og 85 brottfarir. Þar munu 13 flugfélög fljúga til 43 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku, en vinsælustu þrír áfangastaðirnir yfir hátíðardagana eru London, París og Kaupmannahöfn.
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að hvað jól og áramót varðar séum við að nálgast svipaða stöðu og við upplifðum fyrir heimsfaraldur.
„Á aðfangadag er áætlað að 44 flugvélar lendi á Keflavíkurflugvelli. Á árunum 2016 til 2018 voru á bilinu 40 til 50 vélar að lenda, en árið 2019 lentu 33 vélar hér á landi þann dag. Á gamlársdag er áætlað að 43 flugvélar lendi á Keflavíkurflugvelli samanborið við 50 til 60 á árunum 2016 til 2019. Þetta er sannarlega merki um að Ísland er sterkur áfangastaður fyrir ferðamenn.“
„En heilt yfir þá stefnir í góð ferðaþjónustujól í ár og vonandi að veðurguðirnir standi með okkur“
Að sögn Skapta hafa áramót á Íslandi lengi verið mjög vinsæl meðal erlendra ferðamanna en jólin hafa einnig verið að sækja í sig veðrið. „Á suðvesturhorni landsins stefnir í mjög góða nýtingu á hótelum og gistiheimilum yfir jólin og er nánast uppbókað yfir áramótin. Það er hins vegar ekki uppselt á landsbyggðinni, þannig að þar liggja mikil tækifæri. En heilt yfir þá stefnir í góð ferðaþjónustujól í ár og vonandi að veðurguðirnir standi með okkur,“ segir Skapti Örn.
Í ár er búist við að nýársdagur og annar í jólum verði eins og hver annar dagur í flugstöðinni. Þann 1. janúar 2023 munu 120 farþegaflugshreyfingar eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli til og frá 38 áfangastöðum, þar af verða flest flug til og frá London, Kaupmannahöfn og Osló. Er þetta sami fjöldi flugs og var á nýársdag árið 2019 en töluvert meira en síðustu þrjú ár.
Þessar spár eru í takt við það sem kom fram á fundi Isavia fyrr í mánuðinum en þar var greint frá því að Ísland hefði náð til baka 95 prósentum af allri þeirri ferðaþjónustustarfsemi sem landið tapaði í faraldrinum, miðað við 50 prósenta endurheimt á alþjóðavísu.