Innlent

Meta bréf Haga 17 prósent yfir markaðsvirði

Hagfræðideild Landsbankans segir botninum hafa verið náð hjá Högum og mæla með kaupum á hlutabréfum í félaginu. Hún telur bréfin undirverðlögð um allt að 17 prósent.

Í verðmati sínu á Högum mælir hagfræðideild Landsbankans með kaupum á hlut í félaginu. Fréttablaðið/Anton Brink

Hagfræðideild Landsbankans metur gengi hlutabréfa í Högum á 52 krónur á hlut í nýju verðmati en það er 17 prósentum hærra en skráð gengi bréfanna eftir lokun markaða í dag. Hún segir botninum hafa verið náð hjá félaginu og gerir ráð fyrir 2,7 prósenta söluvexti á yfirstandandi rekstrarári.

Eftir að hafa lækkað um ríflega þriðjung í verði í fyrra hafa hlutabréf smásölurisans hækkað um 23 prósent frá áramótum. 

Í verðmatinu, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er bent á að áhrifin af innkomu Costco á markaðinn séu byrjuð að fjara út. Sölusamdrátturinn hafi farið minnkandi eftir því sem liðið hafi á síðasta rekstrarár, sem lauk í febrúar síðastliðnum, en á fyrsta fjórðungi yfirstandandi rekstrarárs, frá mars til maí, nam samdrátturinn 2,4 prósentum. Er það mat greinenda bankans að botninum hafi verið náð en þeir spá 2,7 prósenta söluvexti á þessu rekstrarári og 4,5 prósenta vexti á næsta rekstrarári.

Þó er tekið fram að ekki megi vanmeta áhrif bandaríska verslanarisans. Ekki sé ljóst hvernig hann muni bregðast við ef salan í Kauptúni fari að dvína.

Hagfræðideildin spáir því að EBITDA Haga - afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir - verði um 5.080 milljónir króna á þessu rekstrarári. Til samanburðar spá stjórnendur smásölufélagsins því að EBITDA verði um 5.000 milljónir á rekstrarárinu en það yrði ríflega 20 prósenta hækkun á milli ára. Á næsta rekstrarári mun kostnaðaraðhald og söluvöxtur skila áframhaldandi EBITDA-aukningu, að því er segir í verðmatinu.

Finnur Árnason, forstjóri Haga. Fréttablaðið/Eyþór

Sérfræðingar Landsbankans segja að höggið hafi verið mikið síðasta haust og gera þeir ráð fyrir að EBITDA Haga nái sömu tölu og rekstrarárið 2016 til 2017 ekki fyrr en á rekstrarárinu 2020 til 2021.

Í verðmatinu er auk þess gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður smásölufélagsins lækki um 3,6 prósent á yfirstandandi rekstrarári, bæði vegna grunnáhrifa vegna einskiptiskostnaðar sem féll til á fjórða fjórðungi síðasta rekstrarárs og vegna færri leigufermetra, en félagið hefur fækkað fermetrum sínum um 26 þúsund, bæði með lokunum verslana og minnkun verslunarrýmis.

Á móti mun launakostnaður aukast að mati hagfræðideildarinnar. Hún telur að launaþrýstingur verði áfram áhættuþáttur í rekstrarkostnaði félagsins, „sérstaklega í því ástandi sem nú ríkir á vinnumarkaði með yfirvofandi átök og þenslu“.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Fasteignafélögin fengu meðbyr

Innlent

Skot­silfur: Leita til Logos og Deloitte

Innlent

Íslensk flugfélög geta samið um Síberíuflugleiðina

Auglýsing

Nýjast

Fasteignafélög fengið nær alla athyglina í dag

Enn syrtir í álinn hjá Snapchat

Hættir sem fram­kvæmda­stjóri hjá Origo

Arion semur við Citi um ráðgjöf vegna Valitor

Arion banki gefur út víkjandi skuldabréf

AGS segir Seðla­banka að af­nema inn­flæðis­höftin

Auglýsing