Innlent

Meta bréf Haga 17 prósent yfir markaðsvirði

Hagfræðideild Landsbankans segir botninum hafa verið náð hjá Högum og mæla með kaupum á hlutabréfum í félaginu. Hún telur bréfin undirverðlögð um allt að 17 prósent.

Í verðmati sínu á Högum mælir hagfræðideild Landsbankans með kaupum á hlut í félaginu. Fréttablaðið/Anton Brink

Hagfræðideild Landsbankans metur gengi hlutabréfa í Högum á 52 krónur á hlut í nýju verðmati en það er 17 prósentum hærra en skráð gengi bréfanna eftir lokun markaða í dag. Hún segir botninum hafa verið náð hjá félaginu og gerir ráð fyrir 2,7 prósenta söluvexti á yfirstandandi rekstrarári.

Eftir að hafa lækkað um ríflega þriðjung í verði í fyrra hafa hlutabréf smásölurisans hækkað um 23 prósent frá áramótum. 

Í verðmatinu, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er bent á að áhrifin af innkomu Costco á markaðinn séu byrjuð að fjara út. Sölusamdrátturinn hafi farið minnkandi eftir því sem liðið hafi á síðasta rekstrarár, sem lauk í febrúar síðastliðnum, en á fyrsta fjórðungi yfirstandandi rekstrarárs, frá mars til maí, nam samdrátturinn 2,4 prósentum. Er það mat greinenda bankans að botninum hafi verið náð en þeir spá 2,7 prósenta söluvexti á þessu rekstrarári og 4,5 prósenta vexti á næsta rekstrarári.

Þó er tekið fram að ekki megi vanmeta áhrif bandaríska verslanarisans. Ekki sé ljóst hvernig hann muni bregðast við ef salan í Kauptúni fari að dvína.

Hagfræðideildin spáir því að EBITDA Haga - afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir - verði um 5.080 milljónir króna á þessu rekstrarári. Til samanburðar spá stjórnendur smásölufélagsins því að EBITDA verði um 5.000 milljónir á rekstrarárinu en það yrði ríflega 20 prósenta hækkun á milli ára. Á næsta rekstrarári mun kostnaðaraðhald og söluvöxtur skila áframhaldandi EBITDA-aukningu, að því er segir í verðmatinu.

Finnur Árnason, forstjóri Haga. Fréttablaðið/Eyþór

Sérfræðingar Landsbankans segja að höggið hafi verið mikið síðasta haust og gera þeir ráð fyrir að EBITDA Haga nái sömu tölu og rekstrarárið 2016 til 2017 ekki fyrr en á rekstrarárinu 2020 til 2021.

Í verðmatinu er auk þess gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður smásölufélagsins lækki um 3,6 prósent á yfirstandandi rekstrarári, bæði vegna grunnáhrifa vegna einskiptiskostnaðar sem féll til á fjórða fjórðungi síðasta rekstrarárs og vegna færri leigufermetra, en félagið hefur fækkað fermetrum sínum um 26 þúsund, bæði með lokunum verslana og minnkun verslunarrýmis.

Á móti mun launakostnaður aukast að mati hagfræðideildarinnar. Hún telur að launaþrýstingur verði áfram áhættuþáttur í rekstrarkostnaði félagsins, „sérstaklega í því ástandi sem nú ríkir á vinnumarkaði með yfirvofandi átök og þenslu“.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Heilbrigði verður að vera smá nautn

Innlent

Hagnaður TM dróst saman um 78 prósent

Innlent

Afkoma af fjárfestingum Sjóvár undir væntingum

Auglýsing

Nýjast

Sakfelldir í Icelandair-innherjamáli

Heimilin halda að sér höndum

Skotsilfur: Ofsinn

Magnús Óli endurkjörinn formaður FA

Seldi Íslendingum fasteignir á Spáni fyrir 1,2 milljarða

Arion lækkaði um 2,6 prósent í kjölfar uppgjörs

Auglýsing