Gengi hlutabréfa í Arion banka er metið á bilinu 18 til 56 prósent hærra en útboðsgengi bréfanna í nýjum verðmötum ráðgjafarfyrirtækjanna Capacent og IFS sem Markaðurinn hefur undir höndum. Greinendur IFS telja að verðmæti bankans geti risið undir genginu 0,83 af bókfærðu eigin fé hans en sérfræðingar Capacent verðleggja bankann á genginu 0,94. Til samanburðar býðst fjárfestum að kaupa bréf í bankanum á genginu 0,6 til 0,7 í hlutafjárútboði hans sem lýkur á morgun.

Í greiningu IFS, sem metur gengi bréfa í Arion banka 18 til 37 prósent hærra en útboðsgengið, er því spáð að vaxtamunur bankans muni á næstu árum lækka vegna aukinnar samkeppni og örrar tækniþróunar og verði til lengri tíma litið allt að 2,8 prósent af vaxtaberandi eignum. Til samanburðar hefur munurinn verið að meðaltali um þrjú prósent undanfarin fimm ár.

Greinendur IFS gera auk þess ráð fyrir því að bankinn lækki eigið fé sitt „tiltölulega hratt“ með „myndarlegum“ arðgreiðslum og útgáfu víkjandi skuldabréfa þannig að almenna eiginfjárhlutfall hans fari niður í 17 prósent, en hlutfallið stóð í 23,6 prósentum í lok fyrsta ársfjórðungs.

Þá er því spáð í verðmati IFS að hlutfall kostnaðar bankans af tekjum lækki úr 62,1 prósenti í 52,7 prósent árið 2030 og að arðsemi eigin fjár hækki úr 6,6 prósentum í 9,7 prósent árið 2026. Stjórnendur bankans hafa til samanburðar sett sér það markmið að kostnaðarhlutfallið lækki í um það bil 50 prósent og að arðsemi eigin fjár nái tveggja stafa tölu. Er tekið fram í verðmatinu að fyrrnefnda markmiðið sé „býsna metnaðarfullt ef horft er á kostnaðarhlutföll íslenskra banka um tíðina í bráð og lengd“ og að bankinn hafi „stórt verk að vinna“ til þess að ná síðarnefnda markmiðinu. Raunar segjast greinendurnir ekki sjá – eins og sakir standa – hvernig stjórnendur bankans ætla að auka arðsemina þannig að hún verði tveggja stafa tala.

Valitor stór óvissuþáttur

Í því sambandi benda þeir á að vegna smæðar innlends fjármálamarkaðar séu viðskiptabankarnir „langt“ frá því að ná hagkvæmri stærð í starfsemi sinni. Þó beri að líta til þess að bankaþjónusta sé óðum að færast á netið og í lausnir fyrir farsíma. Áhrif þess séu „nær okkur í tíma en marga grunar“. Er það mat IFS að eiginleg útibú muni að stórum hluta leggjast af á landinu á næstu árum og starfsfólki í höfuðstöðvum jafnframt fækka. Allt þetta muni spara mikla fjármuni í launum og kostnaði við rekstur útibúanna.

Að mati sérfræðinga IFS er starfsemi Valitors, dótturfélags Arion banka, helsti óvissuþátturinn þegar kemur að þóknanatekjum bankans til framtíðar litið, en í verðmatinu kemur fram að greiðslukort og greiðslukortalausnir hafi staðið undir um 40 prósentum af hreinum þóknanatekjum bankans á síðasta ári.

Er tekið fram að starfsemi greiðslukortafyrirtækisins sé um þessar mundir að draga úr hreinum þóknanatekjum samstæðunnar þar sem gjöld vaxi hraðar en tekjur. Stjórnendur bankans hafa sagst gera ráð fyrir umtalsverðum vexti í erlendum þóknanatekjum Valitors – samhliða útrás félagsins á erlenda markaði – en sérfræðingarnir búast á hinn bóginn ekki við miklum vexti þóknanatekna greiðslukortafyrirtækisins umfram annan vöxt. Benda þeir á að þróun í fjártækni og gervigreind sé hröð þessi misserin og því þurfi félagið að halda vel á spöðunum til þess að halda markaðsstöðu sinni. Auk þess missi Valitor stóran viðskiptavin á þessu ári – bandaríska fyrirtækið Stripe – og ef félaginu takist ekki að fá nýjan viðskiptavin í hans stað muni það hafa „veruleg áhrif“ á afkomu þess.

Takmörkuð vaxtartækifæri

Greinendur Capacent, sem meta gengi bréfa í Arion banka 34 til 56 prósent hærra en útboðsgengið, benda á að óvarlegt sé að gera ráð fyrir miklum framtíðarvexti hjá bankanum. Vöxtur íslensku bankanna sé takmarkaður í núverandi rekstrarformi og einskorðist við Ísland og fólksfjölgun hér á landi.

Gert er ráð fyrir að fyrsti viðskiptadagur með hlutabréfin í kauphöll hér á landi og í Stokkhólmi verði á föstudag. Síðasta fimmtudag höfðu fjárfestar skráð sig samanlagt fyrir nærri 30 prósenta hlut í bankanum. Kaupþing og vogunarsjóðurinn Attestor Capital hyggjast selja að lágmarki 22,6 prósenta hlut í útboðinu, miðað við útistandandi hlutafé, en að hámarki um 41 prósent. Hafa erlendir fjárfestingarsjóðir verið fyrirferðarmestir þeirra sem hafa skráð sig fyrir hlut.