Íslenska hagkerfið dróst saman um 10,4 prósent á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni um verga landsframleiðslu. Samdrátturinn á Íslandi er hinn mesti af þeim Evrópulöndum sem birt hafa áætlanir sínar um þróun landsframleiðslunnar á þriðja ársfjórðungi, segir í umfjöllun Hagstofunnar. Á fyrstu níu mánuðum ársins er hagkerfið nú hafa talið dregist saman um 8,1 prósent.

Af undirþáttum landsframleiðslunnar mældist mestur samdráttur í fjárfestingu, eða 15,2 prósent. Einkaneysla dróst saman um 2,4 prósent, en samneysla jókst um 4,4 prósent.

Mikill samdráttur varð í utanríkisviðskiptum. Útflutningur dróst þannig saman um tæplega 39 prósent en innflutningur um ríflega 26 prósent.

Í evrópskum samanburði var Bretland það ríki sem sýndi næstmestan samdrátt á eftir Íslandi, eða um 9,6 prósent. „Samkvæmt birtum áætlunum dróst landsframleiðsla saman um 4,4% að meðaltali innan evrusvæðisins á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs en samdráttur mælist í öllum þeim löndum sem hafa birt bráðabirgðaniðurstöður fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.