Hagsjá Landsbankans fjallar um spá AGS í dag. Miklu meiri breyting hefur orðið á verðbólguspá sjóðsins en hagvaxtarspá frá því í október. Hluti af ástæðunni fyrir lækkun hagvaxtarspárinnar skýrist einfaldlega af meiri verðbólgu. Aukin verðbólga mun kalla á hærra vaxtastig sem dregur úr eftirspurn í hagkerfum heimsins. Aukin verðbólga mun einnig draga úr einkaneyslu vegna minni kaupmáttar en þau áhrif koma með beinum hætti niður á hagvexti.

Innrásin í Úkraínu mun hafa töluverð áhrif til aukinnar verðbólgu

Verðbólga hefur farið stöðugt vaxandi á síðustu mánuðum og hefur innrásin í Úkraínu kynt undir enn verri verðbólguhorfum í gegnum hærra hrávöruverð á t.d. olíuafurðum og hveiti. Þessi verðbólguáhrif eiga enn að einhverju leyti eftir að koma fram hér á landi og erlendis. Spá sjóðsins fyrir verðbólgu í heiminum á árinu hljóðar nú upp á 7,4 prósent sem er mun meira en þau 3,8 prósent sem sjóðurinn spáði síðast í október. Verðbólgan verður einnig meiri á næstu árum en sjóðurinn spáði síðast. Nú spáir sjóðurinn 4,8 prósenta verðbólgu á næsta ári miðað við 3,3 prósent í fyrri spá og 3,8 prósent á árinu 2024 borið saman við 3,2 prósent í fyrri spá.

AGS spáir mestu verðbólgu í þróuðum ríkjum í tæp 40 ár

Sé litið til þróaðri ríkja spáir AGS 5,7 prósenta verðbólgu í ár og gangi sú spá eftir verður það mesta verðbólga í þróaðri ríkjum í tæplega 40 ár. Spáin fyrir Bandaríkin á þessu ári hljóðar upp á 7,7 prósenta verðbólgu en októberspá sjóðsins hljóðaði upp á 3,5 prósent verðbólgu. AGS gerir ráð fyrir að hjöðnun verðbólgunnar í Bandaríkjunum verði töluvert hröð og að verðbólgan á næsta ári verði 2,9 prósent sem er einungis 0,2 prósentustigum meira en síðasta spá sjóðsins fyrir það ár.

Verðbólga í evruríkjum verður 5,3 prósent á þessu ári ef spá sjóðsins gengur eftir borið saman við 1,7 prósenta spá frá því í október. Hjöðnun verðbólgunnar í evruríkjum verður aðeins hægari, en sjóðurinn gerir ráð fyrir að verðbólga á evrusvæðinu verði komin niður í 1,8 prósent árið 2025 sem er ögn hærra en í síðustu spá. Spá sjóðsins fyrir verðbólgu í Rússlandi hefur aukist mikið enda rúblan veikst mikið gagnvart öðrum gjaldmiðlum. AGS spáir núna 21,3 prósenta verðbólgu í Rússlandi á þessu ári og 14,3 prósent á næsta ári. Sjóðurinn spáði áður 6,8 prósenta verðbólgu á þessu ári og 1,6 prósenta verðbólgu á því næsta.

AGS spáir 6,9 prósenta verðbólgu hér á landi á árinu

Hækkun á verðbólguspánni fyrir heiminn mun hafa áhrif hér á landi enda stór hluti neyslukörfunnar innfluttur. AGS spáir því að verðbólga hér á landi verði 6,9 prósent á þessu ári og 5,5 prósent á næsta ári. Sjóðurinn spáir svo 3,7 prósenta verðbólgu árið 2024 og að verðbólgan verði 2,6 prósent árið 2025 og þar með rétt yfir verðbólgumarkmiðinu.

AGS spáir 3,3 prósenta hagvexti hér á landi á árinu

AGS spáir 3,3 prósenta hagvexti hér á landi á þessu ári og 2,3 prósenta hagvexti á hverju ári á árabilinu 2023-2025. Sjóðurinn spáir miklum vexti útflutnings á árinu og að hann aukist um 16,4 prósent. Sá mikli vöxtur mun skýrast fyrst og fremst af miklum vexti í ferðaþjónustu en AGS spáir því að vöruútflutningur muni einungis aukast um 2,9 prósent á árinu. Hóflegur hagvöxtur á árinu þrátt fyrir mikinn vöxt útflutnings skýrist af því að AGS spáir fyrir um mikinn vöxt innflutnings en spáin hljóðar upp á 13,7 prósenta aukningu.