Launavísitalan hefur hækkað nokkuð jafnt og þétt frá því í janúar þegar síðustu áfangahækkanir kjarasamninga komu til framkvæmda. Hún hækkaði samtals um 7,3 prósent á árinu. Kjarasamningsbundnar hækkanir komu til framkvæmda í janúar 2022 þannig að búast má við töluverðri hækkun vísitölunnar í janúar. Árshækkunartaktur launa hefur verið vel yfir 7 prósent allt frá því í desember 2020 sem er töluvert hærra en hefur verið frá miðju ári 2017. Þetta er nokkuð sérstakt í sögulegu ljósi.

Kaupmáttur nokkuð stöðugur þrátt fyrir mikla verðbólgu

Verðbólga í desember mældist 5,1 prósent en árshækkun launavísitölunnar um 7,3 prósent. Kaupmáttur launa jókst því um 2,1 prósent milli desembermánaða 2020 og 2021 þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu. Kaupmáttaraukning launa er því áfram nokkuð stöðug og nokkuð mikil í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað eilítið frá því í janúar í fyrra og var kaupmáttur launa í desember 1,6 prósentum lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki.

Laun hafa hækkað mikið undanfarin ár.

Mikil hækkun launavísitölu 2021

Launavísitalan hækkaði um 8,3 prósent á milli meðaltala áranna 2020 og 2021. Þetta er mun meiri hækkun en á næstu árum þar á undan og hefur vísitalan ekki hækkað meira frá því á árinu 2016, en þá hækkaði vísitalan mest á þessari öld. Meðalhækkun vísitölunnar frá aldamótum er 6,9 prósent og meðalhækkun frá árinu 2011 er 7,0 prósent. Hækkunin á árinu 2021 er því mikil í sögulegu samhengi.

Aukin verðbólga dregur úr kaupmáttaraukningu.

Kaupmáttur launa jókst um 3,7 prósent milli áranna 2020 og 2021 sem er meira en næstu tvö ár þar á undan. Verðbólga var mikil á árinu þannig að tiltölulega miklar launahækkanir skiluðu síðri kaupmætti en ella hefði orðið.

Á árinu 2021 hækkaði kaupmáttur um innan við helming þess sem laun hækkuðu.

Hið opinbera leiðir hækkanir

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli októbermánaða 2020 og 2021 sést að laun á almenna markaðnum hækkuðu áfram mun minna en á þeim opinbera. Launin hækkuðu um 6,5 prósent á almenna markaðnum á þessum tíma og um 10,4 prósent á þeim opinbera, þar af 9,5 prósent hjá ríkinu og 11,7 prósent hjá sveitarfélögunum.

Hið opinbera leiddi því launahækkanir tímabilinu.

Laun hjá hinu opinbera hækkuðu 60 prósent meira en laun á almennum vinnumarkaði árið 2021

Önnur launahækkun fram undan

Samkvæmt kjarasamningum gætu laun hækkað á nær öllum vinnumarkaðnum þann 1. maí vegna ákvæða um hagvaxtarauka. Þar er um að ræða viðmiðun launa við aukningu hagvaxtar á mann á árinu 2021, sem byggja á fyrstu niðurstöðum Hagstofu Íslands um þjóðhagsreikninga ársins 2021 sem munu birtast í lok febrúar.

Töluverð umræða var um hagvaxtaraukann á síðasta ári og sýndist sitt hverjum um þessa tengingu við hagvöxt í því sveiflukennda ástandi sem hefur ríkt síðustu misseri.

Miðað við þær tölur sem komið hafa fram um hagvöxt á árinu 2021 má fastlega reikna með því að virkja megi ákvæði samninga um hagvaxtarauka sem myndi hækka laun þann 1. maí 2022.