Ein helsta hlutabréfavísitalan í Kína hækkaði um ríflega fjögur prósent í dag og hefur ekki hækkað jafnmikið á einum degi frá því í marsmánuði árið 2016. Hækkunin kom í kjölfar fregna um að kínversk stjórnvöld væru reiðubúin til þess að grípa til aðgerða í því augnamiði að styðja við hlutabréfamarkaðinn í landinu.

Umrædd vísitala - Shanghai Composite - rauk upp um 4,1 prósent í viðskiptum dagsins. Hún hækkaði jafnframt nokkuð á föstudag eftir umtalsverðar lækkanir undanfarnar vikur.

Nokkrir háttsettir kínverskir embættismenn, þar á meðal efnahagsráðgjafinn Liu He og yfirmenn kínverska verðbréfaeftirlitsins, gáfu út sameiginlega yfirlýsingu á föstudag sem ætluð var til þess að hughreysta óttaslegna fjárfesta.

Chris Weston, greinandi hjá Pepperstone, segir að yfirlýsingin hafi haft tilætluð áhrif og leitt til mikilla verðhækkana á kínverskum hlutabréfum.

Merki eru um að undanfarið hafi hægst á vexti kínverska hagkerfisins hraðar en greinendur höfðu búist við. Þannig nam hagvöxtur í landinu 6,5 prósent á ársgrundvelli á þriðja fjórðungi ársins, samkvæmt bráðabirgðatölum, en til samanburðar var vöxturinn 6,7 prósent á öðrum ársfjórðungi. 

Sérfræðingar rekja hægari vöxt til aukinnar skuldsetningar í hagkerfinu sem og viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína, að því er segir í frétt Financial Times.