Í tilkynningu frá Olís segir að undanfarna mánuði hafi Olís stigið fyrstu skrefin í umbreytingavegferð félagsins. Vegferðin feli meðal annars í sér breyttar áherslur í vöru- og þjónustuframboði Olís samhliða uppfærslu á ásýnd vörumerkja og þjónustustöðva. Fyrirtækið kynnir nú til leiks breytingar á vörumerkjunum Olís og ÓB.

Samræmi er nú í leturgerð vörumerkja Olís og ÓB.

„Andlitslyfting á vörumerkjum Olís og ÓB endurspeglar þær breytingar sem við erum að kynna til leiks í starfsemi félagsins. Olís er rótgróið og traust vörumerki og fyrirtækið á sér mikla sögu. Við vildum sýna sögunni virðingu en um leið nútímavæða útlit vörumerkisins. Jafnframt viljum við tengja útlit vörumerkjanna Olís og ÓB betur saman, en ólík litasamsetning þeirra endurspeglar mismunandi áherslur í þjónustustigi og verðlagningu.

Á næstu mánuðum munum við kynna fleiri nýjungar í þjónustu- og vöruframboði fyrirtækisins samhliða ýmsum ásýndarbreytingum. Vegferðin okkar miðar fyrst og fremst að því mæta þörfum viðskiptavina á breiðari grunni en við höfum gert hingað til. Hjá Olís finnurðu vini við veginn og allir eru velkomnir. Við hlökkum til framhaldsins og búum vel að því að fyrirtækið byggir á traustum grunni og gildum,“ segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís.

Olís rekur um 70 þjónustu­ og sjálfsafgreiðslustöðvar um allt land undir merkjum Olís og ÓB. Breytt vörumerki Olís og ÓB munu birtast jafnt og þétt á afgreiðslustöðum fyrirtækisins á næstu dögum og vikum.