Aðeins sextán af þeim áttatíu stjórnarmönnum sem sitja í stjórnum félaga sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar eiga yfir eins prósents hlut í því félagi sem þeir sitja í stjórn hjá. Meirihluti stjórnarmanna – alls 45 talsins – á engan hlut í sínum félögum.

Samkvæmt samantekt Markaðarins, sem byggð er á nýbirtum ársreikningum skráðu félaganna, eru einungis sextán stjórnarmenn í samtals tíu skráðum félögum í hópi tuttugu stærstu hluthafa viðkomandi félags. Eiga umræddir stjórnarmenn þannig – í gegnum hlutafjáreign sína – umtalsverðra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í rekstri félaganna.

Stjórnarmenn í Högum eru stjórnarmenn eina skráða félagsins sem eiga ekkert hlutafé í sínu félagi en stjórnarmenn í Origo, Reitum og Símanum eiga jafnframt óverulega hluti í félögunum.

Stjórnarmenn Eimskips og HB Granda eru hins vegar stjórnarmenn þeirra félaga sem eiga hvað mest undir í rekstri félaganna. Þannig er Richard Winston Mark d’Abo, stjórnarformaður Eimskips, einn af eigendum bandaríska fjárfestingarsjóðsins Yucaipa sem á ríflega 25 prósenta kjölfestuhlut í skipafélaginu og þá fara félög sem Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, og Halldór Teitsson stjórnarmaður eru í forsvari fyrir með meira en þriðjungshlut í sjávarútvegsfélaginu.

Minnkandi hlutafjáreign stjórnarmanna og fjölgun óháðra stjórnarmanna á undanförnum hefur haldist í hendur við vaxandi umsvif lífeyrissjóða og dvínandi áhrif einkafjárfesta í íslensku atvinnulífi.

Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og stjórnarformaður Vodafone, en fjárfestingarfélag hans fer með um 6,4 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu, segir tvennt geta útskýrt minnkandi umsvif einkafjárfesta. „Annars vegar hurfu einkafjárfestar af hluthafalistum félaga eftir hrunið fyrir tíu árum og hins vegar tekur lífeyriskerfið til sín óvenju stóran hlut, eða 15,5 prósent, af brúttólaunum fólks. Sparnaður fólks rennur því að miklu leyti til lífeyrissjóðanna. Þetta hefur gert það að verkum að einkafjárfestar eru afar fyrirferðarlitlir hér á landi.

Þá spyr maður sig: Geta ekki einhverjir aðrir komið í staðinn? Eru til einhverjir fjárfestar sem geta komið að félögum og látið til sín taka?“

Eiga 40 prósent allra hlutabréfa

Íslenskir lífeyrissjóðir áttu 39 prósent allra skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni í lok þriðja fjórðungs síðasta árs en til samanburðar var hlutabréfaeign sjóðanna um 8,5 prósent af öllum skráðum bréfum árið 2009. Á sama tíma fór hlutabréfaeign einkafjárfesta, í gegnum eignarhaldsfélög, úr 45 prósentum af markaðsvirði skráðra félaga í 19 prósent.

Lífeyrissjóðir, sem eru langsamlega stærstu fagfjárfestar landsins, hafa leikið lykilhlutverk í endurreisn íslensks hlutabréfamarkaðar á síðustu árum. Það helgast af því að á meðan einkafjárfestar höfðu lítið fé á milli handanna streymdu fjármunir til sjóðanna sem fjárfesta þurfti fyrir, en vegna gjaldeyrishafta áttu þeir þann kost einan að leita eftir fjárfestingarkostum hér á landi.

Þrátt fyrir stóraukin umsvif lífeyrissjóða hefur einkafjárfestum tekist að láta til sín taka innan nokkurra félaga. Það hefur þó jafnan kostað átök. Skemmst er að minnast þess styrjar sem hefur staðið um tryggingafélagið VÍS á síðustu árum en með kjöri Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, sem fer ásamt Guðmundi Þórðarsyni, eiginmanni sínum, með um sjö prósenta hlut í félaginu, sem formanns stjórnar VÍS í mars í fyrra tókst einkafjárfestum í hluthafahópnum að ná völdum í stjórn félagsins. Sá hópur samanstóð, auk hjónanna, meðal annars af fjárfestingarfélaginu Óskabeini, sem á um sex prósenta hlut í félaginu, en Gestur B. Gestsson, stærsti hluthafi félagsins, situr í stjórn tryggingafélagsins.

Átökin snerust öðrum þræði um ólíkar áherslur annars vegar fulltrúa lífeyrissjóðanna og hins vegar helstu einkafjárfesta félagsins. „Ég trúi á mikilvægi þess að einkafjárfestar taki þátt í að móta stefnu félagsins en láti ekki óháðum stjórnarmönnum það eftir,“ sagði Svanhildur í viðtali við Markaðinn í maí í fyrra.

Átök hafa einnig staðið á milli einkafjárfesta og Lífeyrissjóðs verslunarmanna um skipan stjórnar HB Granda. Þeir fyrrnefndu, sem Kristján Loftsson stjórnarformaður er í forsvari fyrir, fara með ríflega þriðjungshlut í félaginu en hlutur lífeyrissjóðsins er tæplega 14 prósent. Á aðalfundi árið 2016 tókst sjóðnum að fella einn stjórnarmanna, Þórð Sverrisson, sem naut stuðnings einkafjárfestanna, og tryggja Önnu G. Sverrisdóttur sæti í stjórn. Í kjölfarið sakaði Kristján lífeyrissjóði um að „spila saman“ og reyna að koma sínu fólki inn í stjórnir skráðra félaga. „Þeir ætla einfaldlega að troða sér inn í stjórnirnar hverja á fætur annarri og meðal annars hjá okkur,“ sagði hann í viðtali við Viðskiptamoggann.

Fáir langtímafjárfestar

Þegar litið er til hlutafjáreignar stjórnarmanna skráðra félaga er áberandi hve fáir stjórnarmenn eiga hlut í sínum félögum og hafa þannig lagt eigin fjármuni til rekstrarins.

Í stjórnum langflestra félaganna – raunar allra að VÍS undanskildu – á meirihluti stjórnarmanna engan eða óverulegan hlut í viðkomandi félagi. Eins og áður sagði eiga stjórnarmenn í Högum engan hlut í félaginu. Þar fyrir utan er samanlagður eignarhlutur stjórnarmanna hvað minnstur í Reitum eða 0,002 prósent af hlutafé félagsins. Hluturinn nemur 0,3 prósentum í Símanum, 0,7 prósentum í Origo og 1 prósenti í Skeljungi, svo fáein dæmi séu tekin.

Heiðar segir mikilvægt að langtímafjárfestar, sem horfi mörg ár fram í tímann, komi að stjórnum félaga fremur en spákaupmenn sem sækjast einungis eftir skammtímagróða. „Langtímafjárfestar eru reiðubúnir til þess að styðja við félög í gegnum þykkt og þunnt, til lengri tíma, á meðan spákaupmenn einblína á að skrúfa upp gengið og innleysa auðfenginn hagnað áður en þeir stökkva frá borði. Því miður hafa Íslendingar fremur hagað sér sem spákaupmenn í gegnum tíðina. Reynslan kennir okkur að þeir eru – upp til hópa – ekki fúsir til þess að festa fé til langs tíma, fimm til tíu ára, heldur hugsa þeir frekar eitt til tvö ár fram í tímann,“ nefnir hann.

Þetta geri það að verkum að nær einu langtímafjárfestar landsins séu lífeyrissjóðirnir. „Og þá vaknar spurningin um það hvernig þeir eigi að beita sér. Sjóðunum fer fækkandi og um leið eru þeir að stækka. Þá geta hugsanlega skapast tækifæri fyrir þá til þess að sérhæfa sig og ráða til sín starfsmenn sem meta fyrirtæki og stjórnir þeirra, skoða framtíðarmöguleika og fleira. En hversu líklegt er að það gerist? Ef það yfirhöfuð gerist tel ég að það sé nokkuð langt í það að lífeyrissjóðirnir verði virkari fjárfestar, ef svo má segja.“

Af ákvæðum laga um hlutafélög er ljóst að stjórnarmönnum ber skylda til þess að gæta hagsmuna félagsins, í samræmi við ákvarðanir hluthafafundar, auk þess sem viðurkennt er að störfum þeirra fylgi sérstök trúnaðarskylda gagnvart viðkomandi félagi. Sem dæmi bannar 76. gr. laganna stjórn að gera ráðstafanir sem eru til þess fallnar að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

Ekki fulltrúar ákveðinna hluthafa

Þóranna Jónsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og stjórnarmaður í Festi, segir mikla hugsanaskekkju fólgna í því að líta á kjörna stjórnarmenn í félögum sem fulltrúa ákveðinna hluthafa. „Samkvæmt lögum um hlutafélög er stjórnarmönnum óheimilt að gæta hagsmuna ákveðinna hluthafa. Þeim ber að vinna að hag félagsins. Orðið „félag“ snýst einmitt um að stjórnarmenn vinni í félagi að því að gæta sameiginlegra hagsmuna. Góðir stjórnarhættir ganga í meginatriðum út á það að bera virðingu fyrir félagaforminu og gæta þar af leiðandi jafnræðis hluthafa.

Það er ekki aðeins úrelt nálgun að líta á stjórnarmenn sem fulltrúa einstakra hluthafa, heldur getur hún einnig verið beinlínis skaðleg. Hagsmunir ólíkra hlutahafa geta stangast á og einnig geta þeir hugsanlega farið í bága við hagsmuni félagsins.“

Þar með sé þó ekki sagt að stjórnin þurfi að vera sammála um allt. „Málefnaleg átök eru fín og ekki óeðlileg þegar hópur fólks með mismunandi sjónarmið kemur saman. En þegar upp er staðið þarf stjórnin að ná samstöðu og komast að niðurstöðu um það hvað félaginu sé fyrir bestu. Það sem einkennir oft átök innan stjórna er ekki einungis það að stjórnarmenn séu ósammála um hvaða leið sé best til þess að ná einhverju sameiginlegu markmiði, heldur snúast þau ekki síður um völd og yfirráð. Það fer oft á tíðum allt of mikil orka í slík átök með þeim afleiðingum að minni áhersla er lögð á sjálfan reksturinn. Stjórnin á ekki að vera vettvangur fyrir hagsmunagæslu.“

Völdum fylgir ábyrgð

Þóranna segir að tilmælum í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja - þess efnis að í það minnsta tveir stjórnarmenn skuli vera óháðir stórum hluthöfum - sé ætlað að koma í veg fyrir alræði stórra hluthafa á kostnað þeirra smærri. „Tilmælunum er ætlað að tryggja að smærri hluthafar hafi einhverja til leið til þess að eiga rödd og koma að málum. Einnig girða þau fyrir það að stórir hluthafar í skráðum félögum geti orðið allsráðandi því slík yfirráð eru í andstöðu við hugmyndina um dreifða eignaraðild og jafnræði hluthafa,“ nefnir hún.

Aðeins þurfi þó tveir stjórnarmenn að vera óháðir stórum hluthöfum, samkvæmt leiðbeiningunum, sem þýði að ráðandi hluthafar geti eftir sem áður ráðið yfir meiri hluta í fimm manna stjórn.

Heiðar segir ekki rétt að líta á utanaðkomandi og óháða stjórnarmenn sem eins konar andlitslausa embættismenn sem taki enga ábyrgð.

„Völdum fylgir ábyrgð. Þeir sem bjóða sig fram til stjórnarstarfa bera heilmikla ábyrgð og ég vona að þeir geri sér grein fyrir því. Þeir geta auk þess komið með ákveðna þekkingu og reynslu af sínu sérsviði að borðinu. Sá sem er hluthafi í félagi þarf ekki endilega alltaf að vera besti kosturinn til þess að setjast í stjórn félagsins. Ef hluthafi í lyfjafyrirtæki hefur til að mynda hagnast á fasteignaviðskiptum er það ekki endilega ákjósanlegast að hann taki sæti í stjórn lyfjafyrirtækisins.“

Forstjóri Marels á hvað mest undir

Forstjórar allra skráðu félaganna sextán eiga eignarhlut í félaginu sem þeir stýra en í flestum tilvikum er hluturinn óverulegur. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, langsamlega stærsta félagsins í Kauphöllinni, á mestu hagsmunanna að gæta en óbeinn eignarhlutur hans í Marel - í gegnum fjárfestingafélagið Eyrir Invest - er metinn á um tólf milljarða króna. Hann á auk þess kauprétt að hlutum í félaginu að virði allt að 590 milljónir króna. 

Stjórnir skráðu félaganna hafa reynt að samtvinna hagsmuni stjórnenda og hluthafa með því að veita framkvæmdastjórum og forstjórum sérstaka kauprétti að hlutabréfum. Með þeim hætti er tryggt að stjórnendurnir eigi mikið undir því að félögunum sem þeir stýra vegni vel.

Að Árni Oddi undanskildum er Orri Hauksson, forstjóri Símans, sá forstjóri sem á hvað stærstan eignarhlut að markaðsvirði í sínu félagi. Alls nemur hlutafjáreign hans í félaginu um 196 milljónum króna. Þá á Finnur Árnason, forstjóri Haga, hlutabréf í félaginu að virði 185 milljónir króna og hlutabréf í TM í eigu Sigurðar Viðarssonar, forstjóra tryggingafélagsins, eru metin á um 126 milljónir króna.

Leiðrétting:

Ranglega var sagt í upphaflegri útgáfu fréttarinnar að Gestur Breiðfjörð Gestsson væri varaformaður stjórnar VÍS. Gestur er almennur stjórnarmaður en Helga Hlín Hákonardóttir varaformaður stjórnar.