Fimmtíu og átta prósentum Íslendinga þykir líklegt að þau muni kaupa jólagjafir á netinu í ár. Hlutfallið var 22 prósent árið 2017 og 15 prósent árið 2015. Þetta kemur fram í könnun Zenter rannsókna sem framkvæmd var dagana 6. til 10. nóvember. Úrtakið var 2.100 manns og svarhlutfallið 52 prósent.

„Það hefur orðið gríðarleg aukning í netverslun,“ segir Guðmundur Tómas Axelsson, framkvæmdastjóri WebMo Design sem meðal annars kemur að þróun netverslana. „COVID-19 gerði það að verkum að margir urðu að tileinka sér það að versla á netinu en þróun í þessa átt var hafin fyrir heimsfaraldurinn. Þegar COVID-19 verður á bak og burt mun ef til vill draga aðeins úr netverslun en fjöldi manns hefur nú vanið sig á að kaupa vikulega á netinu og mun halda því áfram.“

„Það hefur orðið gríðarleg aukning í netverslun,“ segir Guðmundur Tómas Axelsson, framkvæmdastjóri WebMo Design sem meðal annars kemur að þróun netverslana.
Mynd/Aðsend

Hann bendir á að samkvæmt könnuninni séu konur mun líklegri til að kaupa jólagjafir á netinu en karlar. Hlutfallið sé 71 prósent hjá konum en 45 prósent hjá körlum. Þeir sem eru á aldrinum 25 til 44 ára séu líklegri til að kaupa jólagjafirnar á netinu en þeir sem eldri eru.

Könnunin leiðir í ljós að 75-77 prósent fólks á aldrinum 25-44 ára þykir líklegt að þau kaupi jólagjafir á netinu, hlutfallið lækkar í 62 prósent hjá aldurshópnum 45-54, fer í 39 prósent hjá þeim sem eru á aldrinum 55-64 ára og er 28 prósent hjá 65 ára og eldri.

Svipað hlutfall hyggst kaupa jólagjafir á netinu í erlendum netverslunum, samkvæmt könnun Zenter rannsókna, á árunum 2017 og 2020, eða um 30 prósent. „Það er áhugavert að Íslendingar horfa nú einkum til íslenskra netverslana. Það má rekja til heimsfaraldursins. Hann hefur gert það að verkum að kaupendur geta ekki verið vissir um að pakkinn skili sér til Íslands í tæka tíð fyrir jólin. Eins hafa ýmsar erlendar netverslanir takmarkað þann fjölda landa sem þær senda til í þessu árferði,“ segir Guðmundur Tómas.

Samkvæmt annarri könnun á vegum Zenter rannsókna reka 26 prósent fyrirtækja landsins netverslanir. Eftir því sem fyrirtæki eru stærri eru meiri líkur á að þau séu með netverslun. „Mér þykir áhugavert hvað hlutfallið í heildina er lágt í ljósi þess hve mikið neytendur horfa til þess að versla á netinu. Eins horfa einungis tólf prósent fyrirtækja til þess að opna netverslun á næstu tólf mánuðum. Í ljósi samkomutakmarkana vegna COVID-19 hafði ég reiknað með að fleiri stefndu að því að setja á fót vefverslun. Enn fremur eru mikil tækifæri fyrir þjónustufyrirtæki, eins og til dæmis verkstæði, að vera með bókunarkerfi á vefnum. Það myndi skapa verulegt hagræði í rekstri því annars fer mikill tími starfsmanna í að svara í símann og skipuleggja tímabókanir,“ segir hann.

Guðmundi þykir áhugavert að hlutfall fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni sem reka netverslun sé svipað. „Ég hefði talið að það væru mikil tækifæri fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni að stækka markaðssvæði sitt með netverslun og vera í stakk búin að selja um land allt,“ segir hann.

Seinni könnunin sem rætt er um í fréttinni var framkvæmd dagana 9. október til 5. nóvember. Fjöldi fyrirtækja í úrtakinu var 1.300 og svarhlutfallið 52 prósent.