Chanel Björk Sturludóttir, einn af meðlimum dómnefndarinnar, segir að hópnum hafi samið mjög vel og eins hafi verkefnið verið mjög gefandi. Mörg ólík sjónarmið hafi komið fram sem endurspegluðust í áhugaverðum umræðum, en við skipan dómnefndar var leitast við að setja saman einstaklinga sem hefðu sem fjölbreyttastan bakgrunn í aldri, reynslu, búsetu og uppruna.
„Mér fannst mjög skemmtilegt að sjá að tilnefningar komu frá svo mörgum ólíkum sviðum innan atvinnulífsins. Það voru margar tilnefningar úr hinum ýmsu listgreinum auk hönnunar og nýsköpunar. Maður sér að það er komin ný áunnin virðing fyrir þessum fjölbreyttu atvinnugreinum.“
Dómnefndin mun velja konur sem hljóta FKA-viðurkenninguna, þakkarviðurkenninguna og hvatningarviðurkenninguna. Hún segir að sér hafi fundist einstaklega gaman að ræða tilnefningar fyrir hvatningarviðurkenninguna.
„Þetta eru einstaklingar sem eru akkúrat á þeim stað á ferli sínum að þau geta fengið aukna orku við að fá svona viðurkenningu. Það sendir líka mikilvæg skilaboð til annarra einstaklinga sem eru kannski í svipuðum rekstri eða með svipaðan bakgrunn,“ segir Chanel.
Viðurkenningin var fyrst veitt árið 1999 en á tímum heimsfaraldurs Covid-19 var Viðurkenningarhátíð FKA haldin í sjónvarpsþætti í samstarfi við Torg. Hátíðin í ár verður einnig í beinu streymi á vefsíðu Fréttablaðsins.