Verðbólga mælist talsvert meiri en greiningardeildir bankanna spáðu. Landsbankinn spáði 0,3 prósent hækkun milli mánaða, Arion banki spáði 0,35 prósenta hækkun og Íslandsbanki var hæstur með spá upp á 0,4 prósent hækkun. Hagstofan tilkynnti í morgun að hækkunin hefði verið 0,45 prósent og samkvæmt því er ársverðbólgan nú 5,1 prósent.

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 10,8 prósent (áhrif á vísitöluna 0,14 prósent). Verð á mat- og drykkjavörum hækkaði um 0,7 prósent (0,11 prósent en þar af voru mjólkurvörur 0,09 prósent). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,6 prósent (0,10 prósent).

Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs árið 2021 var 503,3 stig, 4,4 prósent hærri en meðalvísitala ársins 2020. Samsvarandi breyting var 2,8 prósent árið 2020 og 3,0 prósent 2019.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,1 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,3 prósent.

Greiningardeildir bankanna hafa gert ráð fyrir því að verðbólgutoppi verði náð nú í desember og verðbólgan fari hjaðnandi upp úr áramótum. Íslandsbanki spáir því að á fyrsta ársfjórðungi 2023 muni verðbólgan verða 2,5 prósent, sem er verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Ljóst er að verðbólgutoppurinn nú í árslok er hærri en greiningardeildir bjuggust við.