Uppgreiðslur á sjóðsfélagalánum voru meiri en ný útlán lífeyrissjóða í júní samkvæmt nýjum tölum Seðlabanka Íslands um útlán sjóðanna. Uppgreiðslur hafa ekki vegið þyngra en ný útlán frá því að Seðlabankinn byrjaði að halda utan um þessi gögn í janúar 2009.

Ný útlán sjóðanna voru nettó neikvæð um 333 milljónir króna í júní. Það skýrist af miklum uppgreiðslum á verðtryggðum lánum, sem voru nettó neikvæð um 896 milljónir króna. Ný óverðtryggð lán voru hins vegar jákvæð um 563 milljónir króna.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að hlutdeild lífeyrissjóða í nýjum húsnæðislánum hefði hrunið frá byrjun árs en til samanburðar voru nettó ný útlán sjóðanna jákvæð um 11,6 milljarða króna í janúar. Á sama tíma hefur hlutdeild bankanna stóraukist en nettó útlán þeirra námu 27,5 milljörðum króna í júní samanborið við tæplega 11 milljarða í janúar.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs sagði að ekki svo margir lífeyrissjóðir byðu upp á óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og bankarnir byðu betri kjör á þessum lánum en flestir sjóðir.

„Skýringin á þessari sundurleitni milli útlána bankanna og lífeyrissjóðanna gæti verið sú að fólk finnur frekar lánin og kjörin sem það er að leita eftir hjá bönkunum. Og það gæti skýrt hvers vegna við höfum ekki séð eins mikinn samdrátt og aðrir sjóðir,“ sagði Ólafur. Mikil ásókn hefur verið í sjóðsfélagalán Birtu í júní en sjóðurinn býður upp á óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum sem eru þeir lægstu á markaðinum.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), sagðist hafa merkt töluverðar uppgreiðslur sjóðsfélaga á allra síðustu mánuðum. Bankarnir hefðu lækkað vexti meira en lífeyrissjóðirnir.

„Án þess að hafa séð bækur bankanna er mín ágiskun sú að þeir eigi erfiðara með að koma peningum í vinnu því samdráttur í hagkerfinu gerir það að verkum að þeir lána ekki eins mikið til fyrirtækja en vextir á húsnæðislánum eru lækkaðir til að lána meira til heimilanna,“ sagði Harpa.

Aðspurð sagði Harpa að uppgreiðslur sjóðsfélaga hefðu ekki valdið miklum röskunum fyrir lífeyrissjóðinn. „Á tímabili var of mikil aukning í sjóðsfélagalánum og þá þrengdum við lánareglurnar. Við erum með þúsund milljarða af eignum og aðeins meiri uppgreiðslur í nokkra mánuði telja því lítið.“

Ný óverðtryggð húsnæðislán banka til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, hafa á síðustu þremur mánuðum numið samtals 146 milljörðum króna samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands. Á sama tímabili hafa ný verðtryggð lán verið nettó neikvæð um 5,8 milljarða.