Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, segir að líkur séu á því að það verði meiri sveiflur á markaðnum á næsta ári en verið hefur. „Það er svona mín tilfinning að markaðurinn verði upp á við í lok næsta árs. En að sjálfsögðu verður niðurstaðan í lok næsta árs ekkert í líkingu við 2021,“ segir Snorri.

„Ég tel að það verði meiri sveiflur á markaðnum á næsta ári heldur en á þessu ári. Svo má ekki gleyma því að fram undan á næsta ári eru stór hlutafjárútboð og við höfum séð það að í tengslum við þessi útboð hefur áhugi fjárfesta aukist og nýir fjárfestar geta komið inn.“

Aðspurður í hvaða geirum hækkanir verði mestar á næsta ári segir Snorri að smásölugeirinn muni að öllum líkindum koma á óvart. „Sá geiri sem hefur kannski gleymst undanfarið er smásölugeirinn, fyrirtæki eins og Hagar og Festi hafa verið að skila sterkum uppgjörum og líkur á það muni halda áfram.“