Far­þegum Icelandair fjölgaði veru­lega í júlí í milli­landa- og innan­lands­flugi, bæði frá júní­mánuði og miðað við sama tíma í fyrra. Far­þegum í tengi­flugi hefur fjölgað tals­vert og þeir ekki verið fleiri frá því áður en Co­vid-19 far­aldurinn hófst.

Þetta kemur fram í mánaðar­legum flutninga­tölum fyrir júlí­ sem Icelandair Group birti í Kaup­höll Ís­lands í morgun.

Heildar­fjöldi far­þega í milli­landa- og innan­lands­flugi hjá Icelandair var um 219.400 í júlí, saman­borið við um 88.000 á sama tíma í fyrra. Þar af voru far­þegar í milli­landa­flugi um 195.200, saman­borið við 73.350 far­þega í júlí 2020 og 72.000 í júní 2021.

Far­þegar til Ís­lands voru 116.700, saman­borið við um 58.350 í júlí 2020 og far­þegar frá Ís­landi voru 27.700 en þeir voru 13.400 í júlí 2020.

Fjöldi tengi­far­þega nam um 50.900 og hafa ekki verið fleiri síðan í febrúar 2020. Sæta­nýting var 70,4 prósent saman­borið við 53,6 prósent í júní 2021 og 70,5 prósent í júlí 2020.

Eftir­spurn eftir frakt­rými vex stöðugt

Icelandair hefur notast við Boeing 767 flug­vélar í stað smærri flug­véla á mörgum flug­leiðum vegna mikillar eftir­spurnar eftir frakt­rými og sem hefur haft nokkur á­hrif á sæta­nýtingu.

Far­þegar í innan­lands­flugi voru um 24.200 saman­borið við 14.600 á sama tíma í fyrra og fjölgaði þeim um 2.000 frá því í júní. Far­þegum í innan­lands­flugi hefur fjölgað um 51 prósent á milli ára það sem af er þessu ári. Frakt­flutningar jukust um 18 prósent á milli ára í júlí og hafa aukist um 19 prósent fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Á þessum tíma­punkti er mikil­vægt að við finnum hinn gullna meðal­veg á milli sótt­varnar­að­gerða á landa­mærum og innan­lands

„Það er á­nægju­legt að sjá að fjölgun far­þega heldur á­fram bæði í milli­landa­flugi og innan­lands. Við fluttum rúm­lega 60 prósent fleiri far­þega til landsins í júlí en í júní sem sýnir mikinn á­huga á Ís­landi sem á­fanga­stað. Stund­vísi í leiða­kerfinu var 81 prósent þrátt fyrir aukið flækju­stig og kröfur til flug­rek­enda vegna ferða­tak­markana sem hafa valdið auknu á­lagi bæði í Kefla­vík og á flug­völlum er­lendis. Þessi góði árangur er til marks um frá­bæra frammi­stöðu starfs­fólks og sam­starfs­aðila á öllum okkar starfs­stöðvum við mjög krefjandi að­stæður. Kórónu­veirufar­aldurinn heldur á­fram að hafa á­hrif á líf og störf hér á landi sem og annars staðar. Á þessum tíma­punkti er mikil­vægt að við finnum hinn gullna meðal­veg á milli sótt­varnar­að­gerða á landa­mærum og innan­lands til þess að við getum sem best stuðlað að jafn­vægi í efna­hags­lífinu og sam­fé­laginu til lengri tíma. Sem leiðandi flug­fé­lag og mikil­vægur at­vinnu­rekandi hér á landi höldum við á­fram að leggja okkar lóð á vogar­skálarnar á þeirri veg­ferð með því að stuðla að öflugum flug­sam­göngum sem eru okkur nauð­syn­legar – ekki bara fyrir ferða­lög og ís­lenska ferða­þjónustu, heldur al­þjóða­sam­skipti, við­skipti, frakt­flutninga og al­menn lífs­gæði í landinu. Við munum því halda sókninni á­fram og nýta þann sveigjan­leika sem við höfum til að mæta eftir­spurn í takt við þá stöðu sem er uppi á mörkuðum okkar á hverjum tíma,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, í til­kynningu frá fé­laginu.