Um níu hundruð manns hafa stofnað grænan innlánsreikning hjá Arion banka frá því að reikningurinn, sem ber heitið Grænn vöxtur, var kynntur um miðjan júní. Samanlögð upphæð grænna innlána hjá bankanum nemur rúmlega hálfum milljarði króna. Þetta kemur fram í svari frá Arion banka við fyrirspurn Markaðarins.

„Að langmestu leyti eru þetta einstaklingar en reikningurinn hentar einnig vel fyrirtækjum, lífeyrissjóðum og félagasamtökum sem kjósa græna valkosti. Eigum við von á að þeirra hlutur muni aukast í framtíðinni,“ segir í svari bankans.

Arion varð fyrstur íslenskra banka til þess að bjóða viðskiptavinum að leggja sparnað sinn inn á græna innlánsreikninga en til að byrja með verður innlánunum miðlað í lán til kaupa á bílum sem nýta umhverfisvæna orkugjafa.

Arion banki mun birta upplýsingar um nýtingu innlánanna og hve mikilli lækkun á kolefnislosun þau skila árlega.

Haldið er utan um öll fjármögnunarverkefni í aðgreindu grænu eignasafni bankans. CIRCULAR Solutions hafa tekið út umgjörð bankans um græn innlán og mun fyrirtækið gera árlega úttekt á því hve vel fjármögnuð verkefni uppfylla skilyrði umgjarðarinnar og meta umhverfisáhrif þeirra. Þá mun bankinn birta upplýsingar um nýtingu innlánanna og hve mikilli lækkun á kolefnislosun þau skila árlega.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í samtali við Markaðinn um mitt sumar að bankinn hefði það að markmið að auka hlut grænna verkefna í lánasafni bankans.

„Markmiðið er að auka hlut grænna verkefna í lánasafni bankans, en fyrst þarf að skilgreina hvað telst grænt og hvað ekki. Það er vinna sem við höfum lokið hvað varðar lánasafn bankans til stærri fyrirtækja,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.

Frumúttekt á lánasafni bankans til stærri fyrirtækja sýndi að minnst 20 til 30 prósent af lánasafni eru líkleg til að flokkast græn. Helsta álitaefnið sneri að fasteignafjármögnun sem er mjög stór hluti lánasafns Arion banka.

Þá sagði Benedikt að bankinn myndi sækja sér græna fjármögnun þegar aðstæður væru réttar og greining á lánasafninu væru mikilvæg forsenda þess.

„Það þarf að liggja fyrir hvað skal fjármagna grænt, hvort sem það eru ný verkefni eða endurfjármögnun eldri verkefna sem eru þegar hluti af lánasafni okkar. Græn fjármögnun er ekki endilega á hagstæðari kjörum en líkleg til að opna á aðgengi að nýjum fjárfestum sem vilja fjárfesta í grænum verkefnum og það er eitt af því sem gerir hana eftirsóknarverða,“ sagði Benedikt.