Opus Futura er veflausn sem er í þróun og mun með tíð og tíma verða að eins konar markaðstorgi fyrir alþjóðlegan vinnumarkað.

Konurnar á bak við fyrirtækið eru þær Herdís Pála Pálsdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir. Þær segja að vinnustaður framtíðarinnar muni líta allt öðruvísi út og að einstaklingar vilji vinna með nýjum hætti, þegar eru farin að sjást merki um þessar breytingar. Fyrirtæki þurfa að hafa mun meira fyrir því en áður að ráða til sín hæft starfsfólk með tilheyrandi kostnaði og er markmið Opus Futura að styðja við framtíðarhæfi þeirra.

Herdís segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað síðasta vor þegar þær báðar hafi verið búnar að koma auga á það að vinnumarkaðurinn hafi tekið stakkaskiptum á undanförnum misserum og voru að velta fyrir sér hvernig best væri að bregðast við. Þær hafi þó rætt þessa þróun töluvert lengur og hvaða kröfur hún geri til stjórnenda.

„Við erum báðar með mikla reynslu úr atvinnulífinu og við sjáum mikil tækifæri í því hvernig vinnumarkaðurinn er að breytast. Þannig að við komum saman og settum allar okkar hugmyndir og reynslu í pott og úr varð Opus Futura.“

Helga bætir við að það beri sífellt meira á því að fyrirtæki eigi í erfiðleikum með að manna sig sem eykur áhættu og getur takmarkað vöxt þeirra. Lykilatriðið er að stjórnendur séu að líta til framtíðarfærni fyrirtækisins í víðara samhengi en áður.

„Það er alveg sama hvar ber niður í dag. Fyrirtæki eiga í miklum erfiðleikum með að manna sig. Fjöldi umsækjenda um hvert starf fer sífellt minnkandi. Þess vegna er mikilvægt að skoða með heildrænum hætti hvaða kröfur þetta eru sem starfsfólk framtíðarinnar er að gera og hvað fyrirtækin geta gert til að uppfylla þær.“

Herdís Pála tekur í sama streng. „Ef við bregðumst ekki við núna þá verður til ákveðin gjá á vinnumarkaði. Staðreyndin er sú að um 40 prósent stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum landsins sjá fram á skort á vinnuafli. En þrátt fyrir það þá halda þeir áfram að laða til sín fólk með sömu gömlu aðferðunum. Þessu þarf að breyta,“ segir Herdís og bætir við að einstaklingar séu búnir að endurhugsa hvernig og með hvaða hætti þeir vilja starfa nú þegar við erum að koma út úr heimsfaraldrinum. Staðan sé nú sem dæmi þannig að einu sinni var reynslutími nýttur af fyrirtækjum til að meta nýja starfsmanninn en nú sé það í rauninni starfsmaðurinn sem sé að meta fyrirtækið, menningu þess og stjórnun.

„Það sem við erum að gera með þessari lausn okkar er að brúa þessa gjá. Það er að segja hjálpa fyrirtækjum að kynna sig á nýjan hátt og hjálpa einstaklingum að meta og bera saman fyrirtæki en einnig að sýna fram á eigin atvinnuhæfni. Til framtíðar litið verða ráðningarsambönd mun fjölbreyttari en áður og við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt og skapa vettvang fyrir fyrirtækin og einstaklingana til að mætast á miðri leið. Hluti af okkar lausn er að skapa eins konar Tinder vinnumarkaðarins.“

Helga segir að greinilegt sé að valdahlutföllin á vinnumarkaði hafi breyst. Það sé liðin tíð að fólk standi í biðröð til að komast í eitthvert ákveðið starf. „Það er ljóst að margt þarf að breytast í stjórnun og mönnun. Við einfaldlega getum ekki haldið áfram að beita sömu aðferðunum meðan vinnumarkaðurinn er að breytast jafn mikið og raun ber vitni.“

Herdís Pála tekur undir og bætir við að veflausnin sem þær eru að vinna að geti einnig nýst fjárfestum við að greina hvort ákveðin fyrirtæki séu fýsilegur fjárfestingakostur.

„Fjárfestar munu geta notað upplýsingar á vefsíðunni okkar til að meta fjárfestingakosti. Í dag er það þannig að fjárfestar eru fyrst og fremst að horfa á fjárhagsstærðir en það eru svo margar aðrar stærðir sem skipta máli. Til dæmis hvort vinnustaðurinn sé heilbrigður, hvort þar sé mikil starfsmannavelta og hver meðal starfstími stjórnenda sé, svo fátt eitt sé nefnt. Þessar stærðir hjálpa ekki síður við að meta áhugaverða kosti en EBITDA, hagnaður og vöxtur.“

Herdís Pála og Helga Jóhanna segja að þær sjái mörg tækifæri í þeirri staðreynd að vinnumarkaðurinn sé að breytast og að þær hlakki til að taka þátt í þeirri vegferð, að gera framtíðarvinnumarkað vænlegri bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga.