Stefán Rúnar Dagsson tók nýlega við stöðu framkvæmdastjóra IKEA en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu í 27 ár.

Hvernig er morgun­rútínan þín?

Ég vakna, fer í sturtu og fæ mér bulletproof kaffi. Kem börnunum í Vatnsendaskóla og er mættur í vinnuna um klukkan átta. Í upphafi hvers vinnudags geri ég skýrslu yfir rekstrartölur gærdagsins, sem allir lykilstjórnendur IKEA fá senda.Hver eru þín helstu áhugamál?Ég hef mjög gaman af því að fara í göngutúra með hundana, hvort sem það er í hverfinu eða meðfram Elliðavatni. Um helgar förum við oft upp í Hádegismóa eða Búrfellsgjá og leyfum hundunum að spretta úr spori. Ég hef ástríðu fyrir fiskum; er með sjávarbúr í bílskúrnum heima með kóralfiskum og kórölum. Svo er ég líka með 8.000 lítra tjörn úti í garði með koi-gullfiskum. Hér áður fyrr stundaði ég mikið golf, sem hefur setið á hakanum undanfarin ár, en hef stefnt á það lengi að taka það upp aftur. Á tímabili hjólaði ég mikið og tók þátt í WOW cyclothon fyrst sem hjólari í 10 manna liði og svo sem aðstoðarmaður í fjögurra manna liði. Í síðara skiptið datt ég því miður út sem hjólari daginn fyrir keppni sökum veikinda í baki. Bæði skiptin var ég með hjólaliði frá IKEA, sem mér fannst mjög gaman að koma á koppinn.

Hvaða bók ert þú að lesa eða last síðast?

Á náttborðinu núna eru tvær bækur. Ég hef verið að glugga í þær undanfarið. Önnur er Handbók athafnamannsins eftir Pál Kr. Pálsson sem góður vinur minn gaf mér í jólagjöf um seinustu jól og hin er Máttur athyglinnar eftir Guðna Gunnarsson. Ég les bækurnar hans Guðna reglulega, mér finnst þær mjög áhugaverðar og skemmtilegt hvernig hann setur viðfangsefnið fram.Hvers konar stjórnunarhætti hefurðu tileinkað þér og hvers vegna?Ég hef tileinkað mér að vera stjórnandi og leiðbeinandi frekar en að vera yfirmaður og ég vil taka ákvarðanir með starfsfólki en ekki fyrir starfsfólk. Ég trúi því að árangur náist með því að vinna hlutina saman og gera hlutina sem ein heild í stað þess að einhver einn taki ákvarðanir.

Hvernig var fyrsta vikan í framkvæmdastjórastólnum?

Fyrsti dagur byrjaði með starfsmannafundi með öllu starfsfólki þar sem ég fór yfir stöðuna og hvernig ég sæi þetta fyrir mér á komandi tímum. Í framhaldi af því hélt ég fund með lykilstjórnendum IKEA og við fórum yfir hlutina og framhaldið næstu daga. Ég átti löngu bókaðan fund í Svíþjóð og eyddi því næstu dögum þar á fundi með átta stærstu mörkuðum IKEA og svokölluðum ROIG-mörkuðum þar sem IKEA-verslanir eru í einkaeigu og reknar á sérleyfi. Fyrsta vikan í starfi sem framkvæmdastjóri IKEA var því ekki nema tveir dagar hér á landi.

Hverjar eru helstu áskoranirnar sem IKEA stendur frammi fyrir á næstu misserum?

Daglegar áskoranir eru fjölbreyttar, eins og að halda uppi góðu þjónustustigi, eiga alltaf réttar vörur og halda versluninni í því góða ástandi sem við höfum gert hingað til. Það er líka hluti af daglegum verkefnum að bjóða upp á góðan mat á besta mögulega verðinu og að sjá til þess að heimsókn viðskiptavina okkar sé eins og best verður á kosið.Þessa dagana erum við að vinna í verðlagningu og vörulista komandi árs. IKEA bindur verð í ár í senn og því er mikilvægt að vera framsýnn og vanda hlutina. Að vörulista koma margir aðilar hér innanhúss og mikilvægt að allir stígi skrefin saman.

Fréttablaðið/Stefán

Við þurfum líka að gæta þess að vera í stöðugri endurnýjun. Við viljum að viðskiptavinir okkar sjái í hverri heimsókn eitthvað nýtt og spennandi og þar sem hver Íslendingur heimsækir okkur nokkrum sinnum á ári að meðaltali, er það mikið og stórt verkefni. Við fáum sífellt nýjungar að utan í vöruúrvalið og svo er það okkar að halda uppi gæðum og upplifun, hvort sem það er í versluninni sjálfri eða á veitingasviði.

Hvað varðar utanaðkomandi aðstæður þá hefur vissulega hægst á vexti, eins og hjá flestum fyrirtækjum á smásölumarkaði, og það þarf að gera ráð fyrir því. Sveiflur í efnahagsmálum eru áskorun fyrir öll fyrirtæki og við erum þar engin undantekning. Það er æskilegt að sveiflurnar séu ekki of miklar en þær eru ófrávíkjanlegur hluti af svona rekstri og við erum undir þær búin.

Eru breytingar eða ný tækifæri fram undan á þessum markaði?

Já, tækifærin eru víða og það eru áhugaverðar nýjungar á leiðinni til okkar. Með haustinu kynnum við nýja línu af snjallhátölurum sem eru unnir í samstarfi við Sonos, sem er sennilega virtasta merkið á þeim markaði. Við kynnum líka nýjungar í snjallvörum fyrir heimilið, til dæmis ljósastýringar, rafdrifnar gardínur og fleira. Eins og alltaf gerir IKEA það á þeim forsendum að það sé fyrir sem flesta og sé einfalt og auðvelt í uppsetningu og notkun. Framtíðin er björt og endalausir möguleikar fram undan.