Þrjú félög sem eru í eigu viðskiptafélaganna Þórarins Arnars Sævarsson og Gunnars Sverris Harðarsonar, sem eru meðal annars eigendur fasteignasölunnar RE/MAX á Íslandi, fara samanlagt með um 6,37 prósenta eignarhlut í Kviku banka.

Miðað við núverandi hlutabréfaverð bankans, sem hefur hækkað um rúmlega fjórðung á undanförnum sex mánuðum, er markaðsvirði hlutarins um 1.190 milljónir króna.

Viðskiptafélagarnir, sem komu fyrst inn í hluthafahóp Kviku síðla árs 2017, eru þannig fimmti stærsti hluthafi fjárfestingarbankans.

Eignarhlutur þeirra í bankanum er í gegnum félögin Premier eignarhaldsfélag, Loran og RPF, eins og ráða má af lista yfir stærstu hluthafa Kviku, en auk þess hefur eignarhaldið að hluta verið í gegnum framvirka samninga hjá Arion banka.

Gengi hlutabréfa Kviku stóð í 10,13 krónum á hlut eftir lokun markaða í gær og hefur hækkað um 22 prósent frá áramótum.