Í kjölfar kaupa Kviku banka á GAMMA Capital Management verður sameinað félag með 15 til 20 prósenta hlutdeild, eða áþekka hlutdeild og samstæða Landsbankans, á eignastýringarmarkaði. Eftir sem áður mun samstæða Arion banka tróna yfir keppinautum sínum með 35 til 40 prósenta hlutdeild.

Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem lagði í síðustu viku blessun sína yfir kaup fjárfestingarbankans á GAMMA. Um er að ræða tölulegt mat eftirlitsins á markaðshlutdeild á grundvelli verðmætis eigna í stýringu.

Er það mat eftirlitsins að samruninn muni ekki raska samkeppni á mörkuðum með neinum umtalsverðum hætti.

Samkeppniseftirlitið rannsakaði sérstaklega markaðinn fyrir eigna­stýringu og undirmarkaði hans í ljósi þess að samruninn tekur nær eingöngu til eignastýringar þar sem umsvif GAMMA á öðrum sviðum fjármálaþjónustu, sem Kvika býður einnig upp á, eru afar lítil.

Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku og rekstrarfélögum í eigu bankans verða um 400 milljarðar króna í kjölfar kaupanna.

Var það niðurstaða eftirlitsins að í heild leiddu kaupin til þess að hlutdeild fyrirtækjanna tveggja á heildarmarkaðinum fyrir eigna­stýringu styrktist nokkuð. Kaupin hefðu hins vegar lítil áhrif á hlutdeild á smásölusjóðamarkaði en samþjöppun ykist nokkuð á fagfjárfestasjóðamarkaði.

„Það skiptir verulegu máli í þessu sambandi að á þeim markaði, jafnt sem smásölusjóðamarkaði, etur sameinað félag kappi við öfluga keppinauta sem búa yfir miklum fjárhagslegum styrkleika, þ.e. við stóru viðskiptabankana þrjá,“ segir í ákvörðun eftirlitsins.

Jafnframt búi sameinað félag við öflugt kaupendaaðhald frá almennu lífeyrissjóðunum.

Í umsögnum til Samkeppniseftirlitsins kom almennt fram það mat hjá keppinautum á eignastýringarmarkaði, jafnt stórum sem smáum, að samkeppnin væri hörð á markaðinum.

Virtust fyrirtækin á markaðinum ekki telja að samruninn myndi hafa neikvæð áhrif á samkeppni. Ekki væri ólíklegt að aukin stærðarhagkvæmni sameinaðs félags Kviku og GAMMA myndi leiða til aukinnar verðsamkeppni.

Slík aukin verðsamkeppni myndi þó geta gert smærri fyrirtækjum erfiðara um vik á markaðinum en þar sem smærri fyrirtækin einbeittu sér fremur að óhefðbundnari fjárfestingarkimum markaðarins, þá ætti það hins vegar ekki við um öll smærri fyrirtækin.