Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu (MDE) hefur vísað frá kæru Ólafs Ólafs­sonar vegna skýrslu rann­­sóknar­­nefndar Al­þingis frá árinu 2017 um að­komu þýska bankans Hauck og Auf­hauser að einka­­væðingu Búnaðar­bankans árið 2003. RÚV greindi fyrst frá frá­vísuninni í morgun. Ólafur segir í yfirlýsingu sem barst fjölmiðlum eftir að úrskurðurinn féll að hann skoði nú að höfða mál gegn ríkinu fyrir íslenskum dómstólum.

Ólafur vildi meina að störf nefndarinnar hefðu haft í­gildi saka­mála­rann­sóknar en í úr­skurði MDE er því hafnað. Telji Ólafur að finna megi æru­meiðingar í um­ræddri skýrslu þurfi að leysa úr því fyrir ís­lenskum dóm­stólum.

Ólafur lagði fram kæru til MDE vegna skýrslunnar um mitt ár 2017 og vildi hann meðal annars meina að hún hefði falið í sér saka­mál og niður­staða hennar jafn­gilt refsingu. Þá hefði hann ekki notið þeirra réttinda sem sak­borningar í slíkum málum eiga að njóta.

Al­þingi skipaði sér­staka rann­sóknar­nefnd árið 2016 til að skoða þátt­töku Hauck og Auf­hauser í einka­­væðingu Búnaðar­bankans. Í skýrslunni kom fram að að­koma þýska bankans hafi að­eins verið til mála­­mynda. Þau hluta­bréf sem þýski bankinn keypti í Búnaðar­bankanum voru seld með milljarða króna hagnaði.

Í um­fjöllun Frétta­blaðsins um málið 2019 kom fram að hagnaðurinn hafi setið á banka­­reikningi Welling & Partners, sem var aflands­­fé­lag þýska bankans, og var greiddur út árið 2006. Var Ólafur sagður hafa fengið rúman helming hagnaðarins í gegnum aflands­­fé­lagið Marine Choice Limited en restin rann til Dek­hill Advis­ors.

Tyge Trier, lögmaður sem sótti málið fyrir hönd Ólafs, segir niðurstöðuna vera vonbrigði í yfirlýsingu sem barst fjölmiðlum í hádeginu.

Annars vegar er því vísað frá að rannsókn og niðurstaða Rannsóknarnefndarinnar hafi jafngilt sakamálarannsókn. Á hinn bóginn, vegna tæknilegra lagamála, fékkst ekki niðurstaða varðandi það hvort við málsmeðferðina á árunum 2016 og 2017 hafi frá upphafi verið gert ráð fyrir sekt Ólafs eða gætt að friðhelgi einkalífs hans og orðspori.

„Ég dreg þá ályktun að líta megi á ákvörðunina, sem einungis var tekin af þremur dómurum, sem aðvörun til íslenskra stjórnvalda að til staðar hafi verið alvarleg álitamál hvað mannréttindasáttmálann varðar, en einnig að til staðar hafi verið lagaleg úrræði sem ekki var látið á reyna. Kvörtunin er því ekki tekin til meðferðar. Í mínum huga er enginn vafi á að brotið hafi verið á rétti Ólafs til friðhelgi einkalífs og ætlaðs sakleysis,“ segir Tyge meðal annars í yfirlýsingunni.

Þá kemur fram að Ólafur meti nú hvort hann kjósi að höfða mál á hendur ríkinu fyrir íslenskum dómstólum vegna framgöngu Rannsóknarnefndar Alþingis. „Ég mun meta þessa niðurstöðu, en áhugi minn á að reka mál fyrir íslenskum dómstólum er lítill að fenginni reynslu og tímanum sjálfsagt betur varið til uppbyggilegri mála,“ segir Ólafur í yfirlýsingunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.