Kroger, sem rekur stærstu keðju stórmarkaða í Bandaríkjunum, vinnur að því að þróa sjálfakandi bíla sem munu senda matvörur heim að dyrum viðskiptavina. Verkefnið er unnið í samstarfi við rafbílaframleiðandann Nuro. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal.

Stjórnendur fyrirtækjanna segja að með þeim hætti megi gera þjónustuna ódýrari og auðveldara verði að bjóða upp á heimsendingu á strjálbýlum svæðum í Bandaríkjunum.

Næstum þriðjungur þeirra sem svöruðu könnun á vegum Forrester Analytics sögðu að þeir nýttu ekki netverslanir í meira mæli vegna þess að þar kosti varan oft meira en í hefðbundum verslunum.

Í fréttinni kemur fram að netverslun telji rúmlega tvö prósent af bandaríska matvörumarkaðnum og margir reikni með að hlutfallið verði áfram lágt.

Samningur Kroger er hinn þriðji á tveimur mánuðum þar sem fyrirtækið leitar leiða til að höfða til viðskiptavina samhliða því að Amazon og Walmart leggja aukna áherslu á að selja mat á netinu.

Kroger fjárfesti fyrir 250 milljónir dollara, jafnvirði tæplega 27 milljarða króna, í bresku netversluninni Ocado Group sem selur mat og yfirtók Home Chef, sem starfar í anda Eldum rétt, til að selja réttina í verslunum fyrirtækisins og á netinu.