Matvælaverð á heimsvísu hefur ekki hækkað jafn mikið í einum mánuði en í maí samkvæmt matvælavísitölu Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Vísitalan hækkaði um 40 prósent í liðnum mánuði og hefur ekki hækkað jafn mikið síðan í september 2011.
Þetta þykir merki um að verðbólga af völdum COVID-faraldursins sé að aukast en vísitala FAO gefur góða vísbendingu um þróunina á markaðinum með landbúnaðarvörur á heimsvísu.
Sífellt meiri eftirspurn eftir korni og sojabaunum í Kína, mikill þurrkur í Brasilíu og meiri eftirspurn eftir grænmætisolíu til framleiðslu lífdísilolíu eru meðal ástæður þess að verð á matvælum fer stöðugt upp á við. Launa-, flutnings- og fraktkostnaður verður einnig til þess að matvælaverð hækkar.

„Aukning flutningskostnaðar samhliða hækkandi olíuverði og flöskuhálsum í fraktflutningum með skipum gera það að verkum að það er mikill þrýstingur á verðhækkanir,“ segir Carloine Bain hjá Capital Economics.
Áhrifa hækkandi matvælaverðs mun einkum gæta í fátækari löndum, sem treysta meira á innflutning á matvælum en þau sem ríkari eru þar sem verð á hrávörum til matvælaframleiðslu hefur minni áhrif á heildarverð matvæla í verslunum eða á veitingastöðum.
Verð til neytenda mun hækka
Ríkari lönd munu þó ekki sleppa við verðhækkanir að því er segir í umfjöllun Financial Times. Stórir framleiðendur matvæla á borð við Nestlé og Coca-Cola hafa tilkynnt að verðhækkunum á hráefni verði velt út í vöruverð. Eftir samkomutakmarkanir og útgöngubönn eru margir æstir í að fara út að borða á nýjan leik og telja hagfræðingar og aðrir sérfræðingar líklegt að það auki verðhækkanir enn frekar.
„Neysla matvæla heima við bætti ekki alveg upp samdráttinn í neyslu á veitingastöðum en þegar fólk fer út að borða á ný fer verð hækkandi,“ segir Abdolreza Abbassian, yfirhagfræðingur hjá FAO.