Vörukarfa ASÍ hækkaði í átta af átta mat­vöru­verslunum sem könnunin nær til á rúm­lega sjö mánaða tíma­bili. Vörukarfan hækkaði á bilinu 5-17 prósent, mest hjá Heim­kaup, 16,6 prósent en minnst í Krónunni, 5,1 prósent.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá ASÍ þar sem segir að hækkunin sé í takt við breytingar á vísi­tölu neyslu­verðs á sama tíma­bili sem sýnir 6,2 prósent hækkun á á mat- og drykkjar­vöru. Næst mest hækkaði vörukarfan hjá Iceland, 12,4 prósent og næst minnst hjá Bónus, 5,7 prósent. Vörukarfa ASÍ endur­speglar al­menn matar­inn­kaup meðal­heimilis.

Upp um 16,6 prósent

Mest hækkaði vörukarfan í Heim­kaup, 16,6 prósent. Drykkjar­vörur er sá mat­vöru­flokkur sem hækkaði mest hjá Heim­kaup, 33,8 prósent en kjöt­vara minnst, 6,7 prósent. Næst mest hækkaði vörukarfan í Iceland, 12,4 prósent.

Mest hækkaði mjólkur­vara hjá Iceland, 24,1 prósent og er það mesta hækkun í þessum vöru­flokki í könnuninni. Ef litið er til annarra verslana sem eru með meira vöru­úr­val, lengri opnunar­tíma eða eru stað­settar úti á landi má sjá að vörukarfan hækkar um 8,9 prósent í Kram­búðinni, um 7,5 prósent í Kjör­búðinni og um 6,5 prósent í Hag­kaup.

Minnst um 5,1 prósent

Í til­kynningu ASÍ segir að þegar litið er til lág­vöru­verðs­verslana megi sjá að vörukarfan hækkaði mest í Nettó, 8,7 prósent en minnst í Krónunni, 5,1 prósent.

Í Nettó voru mestar verð­hækkanir í flokki kjöt­vara, mjólkur­vara, osta og eggja, 11% í báðum flokkum. Minnst hækkaði verð á drykkjar­vöru í Nettó, 1,6 prósent. Í Krónunni hækkaði kjöt­vara mest í verði, 10 prósent og mjólkur­vara, ostar og egg næst mest, 8 prósent. Verð á græn­meti lækkaði hins vegar um 1,3 prósent og verð á­vöxtum um 0,8 prósent.

Verð í öðrum mat­vöru­flokkum í versluninni hækkaði um 3-5 prósent. Í Bónus hækkaði vörukarfan um 5,7 prósent. Í Bónus varð mest hækkun á á­vöxtum á tíma­bilinu, 10,3 prósent. Þar á eftir kemur 8,9 prósent hækkun á hrein­lætis- og snyrti­vöru og 8,3 prósent hækkun á mjólkur­vöru, ostum og eggjum eins og sjá má í töflunni hér að neðan.

Mjólk og ostar hækka mest

Miklar verð­hækkanir voru í öllum vöru­flokkum en mest hækkaði verð í flokki mjólkur­vara, osta og eggja eða á bilinu 8-25 prósent. Bæði hækkaði verð í flokknum að meðal­tali mest, um 14,2 prósent auk þess sem miklar verð­hækkanir í vöru­flokknum náðu til allra verslana.

Verð á kjöt­vöru, á­vöxtum og græn­meti hækkaði einnig mikið en hafa ber í huga að á­vextir, græn­meti og kjöt­vara eru mat­vöru­flokkar þar sem verð sveiflast mest.

Minni hækkanir voru á hrein­lætis­vöru, sykur, súkku­laði og sæl­gæti og flokki ýmissa mat­vara sem saman­stendur af fisk, olíum og feit­meti og þurr­vörum og dósa­mat. Verð í þeim flokkum hækkaði að meðal­tali á bilinu 6-7 prósent.