Marz sjávarafurðir hagnaðist um 271 milljón króna á síðasta ári samanborið við 183 milljónir króna árið á undan. Þá námu rekstrartekjur félagsins árið 2020 4,4 milljörðum króna samanborið við 4,6 milljarða árið 2019 og lækkuðu því um 5,1 prósent milli ára.

Í nýbirtum ársreikningi félagsins kemur fram að þær aðgerðir sem ráðist var í árið 2020 til að draga úr áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins á rekstur félagisns hafi skilað tilætluðum árangri. Þó sé óvissa enn til staðar um hver endanleg áhrif faraldursins verða en þau ráðast meðal annars af því hve lengi faraldurinn mun vara. Það sé at stjórnenda fyrirtækisins að áhrifin verði ekki veruleg og rekstrarhæfi félgsins sé tryggt.

Eigið fé félagsins í árslok 2020 nam 1,4 milljörðum króna samanborið við 1,2 milljarða króna árið 2019. Eignir félagsins á síðasta ári námu rétt tæpum 1,8 milljörðum króna en þær voru 1,5 milljörðum króna árið 2019.

Félagið er í eigu þeirra Erlu Bjargar Guðrúnardóttur og Sigurðar Ágústssonar. Marz sjávarafurðir ehf. er útflutings og umboðssölufyrirtæki á sjávarafurðum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru staðsettar á Stykkishólmi.