Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, sendi starfsmönnum félagsins bréf í dag þar sem hann fer yfir stöðu félagsins eftir fréttir dagsins af kaupum Icelandair. Markmið félagsins hafi ekki breyst, áfram verði unnið að því að bjóða viðskiptavinum upp á lægstu fargjöldin.

Í bréfinu kemur fram að Wow air verði sjálfstætt dótturfélag Icelandair, kaupin séu enn háð samþykki hluthafa Icelandair Group og samþykki Samkeppniseftirlitsins, en slíkt muni taka þrjár vikur. 

Hann tekur jafnframt fram að engin breyting verði á daglegum rekstri Wow air, félagið muni halda áfram að þjóna farþegum og áfangastöðum eins og áður. Markmiðið sé það sama, að bjóða upp á lægstu fargjöldin til og frá Íslandi.

„Það verða engar breytingar í okkar daglega rekstri og við munum halda áfram að þjónusta okkar farþega og áfangastaði með það að markmiði að bjóða lægstu fargjöldin til og frá Íslandi sem og yfir Atlantshafið.“

Segir í bréfinu að þó þetta hafi ekki verið upphafleg áætlunin, telji Skúli þetta nú vera besta lausnin fyrir tilvist Wow air sem lággjaldaflugfélags.

„Ég geri mér grein fyrir því að þetta kemur mörgum ykkar í opna skjöldu og þetta er augljóslega ekki það sem lagt var upp með. Hins vegar, miðað við aðstæðurnar þá tel ég þetta bestu niðurstöðurnar fyrir okkar teymi, okkar farþega, framtíð WOW air sem lággjaldaflugfélags og ekki síst fyrir ferðaiðnaðinn á Íslandi. Ég hvet ykkur öll til að þetta líta á þetta sem tækifæri til að halda áfram á okkar vegferð, nú sem hluti af sterkari hóp sem mun leiða til árangurs til lengri tíma litið.“