Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hríðféll um meira en níu prósent í fyrstu viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði. Vísitalan fór niður í 1.665 stig skömmu eftir að markaðir opnuðu í morgun en hún stóð í 1.838 stigum við lokun markaða síðdegis í gær.

Hlutabréf í Icelandair Group féllu um meira en fimmtung í verði í fyrstu viðskiptum dagsins og fór gengi bréfanna undir fjórar krónur á hlut en til samanburðar stóð það í fimm krónum á hlut eftir lokun markaða í gær.

Fram kom í tilkynningu sem Icelandair Group sendi Kauphöllinni í morgun að tímabundið ferðamann bandarískra stjórnvalda til og frá Evrópu, sem gildir í þrjátíu daga frá næsta laugardegi, myndi hafa veruleg áhrif á flugáætlun félagsins á tímabilinu. Félagið mun draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl, umfram það sem áður hafði verið tilkynnt um.

Um 490 flug­ferðir Icelandair eru á­ætlaðar til Banda­ríkjanna á tíma­bilinu. Félagið segir ljóst að út­breiðsla CO­VID-19 hafi veru­leg á­hrif á ferða­lög um allan heim. Fjár­hags­leg á­hrif þessa á Icelandair Group séu enn ó­viss en eins og til­kynnt hafi verið um sé fé­lagið að greina mögu­legar sviðs­myndir og mót­vægis­að­gerðir í ljósi stöðunnar.